„Við gerum þetta með okkar hætti, þetta er okkar ákvörðun. Ríkisstjórnin ætlar ekki að halda áfram með þessa umsókn. Einhvern tímann verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla en ég get ekki sagt hvenær eða af hálfu hvers.“
Þetta er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, á fréttavef Bloomberg-fréttaveitunnar í gær vegna þeirra ummæla Stefans Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi síðastliðinn fimmtudag að best væri fyrir alla að það lægi fyrir sem fyrst hvort viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið yrði haldið áfram eða ekki. Spurður um tímamörk Füles segist Gunnar Bragi ekki vita hvað stækkunarstjórinn hafi verið að tala um. Áður en til þjóðaratkvæðis um málið gæti komið yrði gerð úttekt á stöðu málsins.
Fram kemur í fréttinni að ríkisstjórn Íslands hafi staðið við þá ætlan sína að stöðva viðræðurnar við Evrópusambandið. Ráðamenn landsins séu staðráðnir í því að framselja ekki yfirráðin yfir náttúruauðlindum lands og forðast efnahagserfiðleikana á evrusvæðinu. Forystumenn Evrópusambandsins hafi gjarnan viljað fá Ísland í sambandið til marks um að það væru ekki aðeins fátæk ríki sem sæktust eftir því að ganga í það. Ákvörðun Íslands hafi breytt því.
Frétt Bloomberg-fréttaveitunnar