Brostnar vonir Svandísar

Sorgmædd Svandís
Sorgmædd Svandís mbl.is/Ómar Óskarsson

Hin ást­sæla álft Svandís hef­ur komið tug­um unga á legg í 17 sumra varp­s­ögu sinni í hólm­an­um í Bakka­tjörn á Seltjarn­ar­nesi. Nú eru hins veg­ar blik­ur á lofti. Grun­ur var um að Svandís lægi á fú­leggj­um enda hef­ur ekk­ert líf glæðst í hreiðrinu. Nú virðist hún hafa gef­ist upp og yf­ir­gefið hreiðrið.

Þegar ljós­mynd­ari mbl.is lagði leið sína að Bakka­tjörn í dag svömluðu Svandís og maki henn­ar um tjörn­ina hvort í sínu lagi án þess að virða hreiðrið né hvort annað viðlits. Svan­ir þykja róm­an­tísk­ir fugl­ar enda mak­ast þeir jafn­an fyr­ir lífstíð, en þó eru dæmi þess að til skilnaðar komi ef eitt­hvað bregður út af. Ófrjó­semi gæti í þessu til­viki reynst próf­steinn á sam­bandið.

Aukn­ar lík­ur á skilnaði

„Það er nú yf­ir­leitt með þessa lang­lífu fugla að þeir para sig til lengri tíma, við get­um kallað það til lífstíðar, en ef eitt­hvað kem­ur fyr­ir varpið aukast lík­ur á því að til skilnaðar komi,“ seg­ir Ævar Peter­sen fugla­fræðing­ur aðspurður um hátta­lag álftap­ars­ins ást­sæla á Bakka­tjörn.

Lítið var um róm­an­tík eða inni­leika milli pars­ins þegar ljós­mynd­ari mbl.is leit til þeirra í dag og því spyr maður sig hvort það séu fyrstu merk­in um að ást­in sé úti hjá lífs­föru­naut­un­um. 

Jó­hann Óli Hilm­ars­son fugla­fræðing­ur seg­ir þó að ekki sé öll von úti hjá álftap­ar­inu. „Ef varpið klikk­ar eru meiri lík­ur á að þau komi ekki aft­ur sam­an en það þarf þó ekki að vera. Við skul­um bara bíða og sjá og vona að þetta gangi bet­ur næsta sum­ar.“ Aðspurður seg­ir hann þó svona áfall hugs­an­lega geta orðið til þess að parið snúi ekki aft­ur á sama varpstað að ári.

Útil­okað að hún reyni aft­ur í sum­ar

Svandís hef­ur vana­lega komið 4 til 5 ung­um á legg og yf­ir­leitt klekj­ast þeir úr eggj­um um miðjan maí. Því var ljóst að ekki var allt með felldu þegar langt var komið fram í júní og hún hafði legið á eggj­un­um vik­um sam­an.

Nú kólna egg­in í hreiðrinu og segja fugla­fræðing­arn­ir eng­ar lík­ur á því, úr því sem komið er, að Svandís geri aðra til­raun til varps þetta sum­arið. „Ekki þegar svona lang­ur tími er liðinn, hún er búin að liggja á allt of lengi,“ seg­ir Ævar.

Erfitt er að full­yrða hvað veld­ur því að varpið bregst nú eft­ir öll þessi ár en Sæv­ar seg­ir ald­ur­inn ekki þurfa að vera vanda­mál. „Elstu svan­ir sem vitað er um hafa orðið upp und­ir 30 ára gaml­ir og enn með unga.“ Jó­hann Óli seg­ir ekki úti­lokað að ann­ar fugl­inn sé orðinn ófrjór.

Hver svo sem ástæðan er virðist nú ljóst að eng­ir álft­ar­ung­ar verða á Bakka­tjörn í sum­ar og munu ef­laust marg­ir Seltirn­ing­ar sakna þess enda hef­ur fjöl­skyldu­líf Svandís­ar verið í upp­á­haldi hjá mörg­um um langt skeið.

Svandís og ektamaki hennar þegar allt lék í lyndi.
Svandís og ekta­maki henn­ar þegar allt lék í lyndi. ml.is/Ó​mar Óskars­son
Engir svona litlir hnoðrar verða á Bakkatjörn þetta sumarið.
Eng­ir svona litl­ir hnoðrar verða á Bakka­tjörn þetta sum­arið. mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Álftin Svandís hefur komið tugum unga á legg á Bakkatjörn …
Álft­in Svandís hef­ur komið tug­um unga á legg á Bakka­tjörn síðastliðin 17 sum­ur. mbl.is/Ó​mar ósk­ars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert