Hin ástsæla álft Svandís hefur komið tugum unga á legg í 17 sumra varpsögu sinni í hólmanum í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Grunur var um að Svandís lægi á fúleggjum enda hefur ekkert líf glæðst í hreiðrinu. Nú virðist hún hafa gefist upp og yfirgefið hreiðrið.
Þegar ljósmyndari mbl.is lagði leið sína að Bakkatjörn í dag svömluðu Svandís og maki hennar um tjörnina hvort í sínu lagi án þess að virða hreiðrið né hvort annað viðlits. Svanir þykja rómantískir fuglar enda makast þeir jafnan fyrir lífstíð, en þó eru dæmi þess að til skilnaðar komi ef eitthvað bregður út af. Ófrjósemi gæti í þessu tilviki reynst prófsteinn á sambandið.
„Það er nú yfirleitt með þessa langlífu fugla að þeir para sig til lengri tíma, við getum kallað það til lífstíðar, en ef eitthvað kemur fyrir varpið aukast líkur á því að til skilnaðar komi,“ segir Ævar Petersen fuglafræðingur aðspurður um háttalag álftaparsins ástsæla á Bakkatjörn.
Lítið var um rómantík eða innileika milli parsins þegar ljósmyndari mbl.is leit til þeirra í dag og því spyr maður sig hvort það séu fyrstu merkin um að ástin sé úti hjá lífsförunautunum.
Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir þó að ekki sé öll von úti hjá álftaparinu. „Ef varpið klikkar eru meiri líkur á að þau komi ekki aftur saman en það þarf þó ekki að vera. Við skulum bara bíða og sjá og vona að þetta gangi betur næsta sumar.“ Aðspurður segir hann þó svona áfall hugsanlega geta orðið til þess að parið snúi ekki aftur á sama varpstað að ári.
Svandís hefur vanalega komið 4 til 5 ungum á legg og yfirleitt klekjast þeir úr eggjum um miðjan maí. Því var ljóst að ekki var allt með felldu þegar langt var komið fram í júní og hún hafði legið á eggjunum vikum saman.
Nú kólna eggin í hreiðrinu og segja fuglafræðingarnir engar líkur á því, úr því sem komið er, að Svandís geri aðra tilraun til varps þetta sumarið. „Ekki þegar svona langur tími er liðinn, hún er búin að liggja á allt of lengi,“ segir Ævar.
Erfitt er að fullyrða hvað veldur því að varpið bregst nú eftir öll þessi ár en Sævar segir aldurinn ekki þurfa að vera vandamál. „Elstu svanir sem vitað er um hafa orðið upp undir 30 ára gamlir og enn með unga.“ Jóhann Óli segir ekki útilokað að annar fuglinn sé orðinn ófrjór.
Hver svo sem ástæðan er virðist nú ljóst að engir álftarungar verða á Bakkatjörn í sumar og munu eflaust margir Seltirningar sakna þess enda hefur fjölskyldulíf Svandísar verið í uppáhaldi hjá mörgum um langt skeið.