Það var heldur óvenjuleg sjón sem blasti við Kjartani Reynissyni á Reyðarfirði í dag. Hann var að hjóla frá Fáskrúðsfirði að Reyðarfirði þegar hann sér eitthvert hlass í fjörunni.
Í fyrstu taldi Kjartan þetta vera dauðan hval, en að hjólareiðatúr loknum þegar hann ætlaði að athuga málið sá hann að þarna var á ferðinni rostungur.
„Við erum bara hérna tveir einir í heiminum, ég og rostungurinn,“ sagði Kjartan þegar mbl.is náði tali af honum í dag. Lá Kjartan þá skammt frá rostungnum.
„Hann blæs heldur ógnandi ef maður nálgast hann,“ segir Kjartan sem telur hann vera tæpa 3 metra að lengd og örugglega vel á annað tonnið. „Hann er búinn að vera hér í sólinni í allan dag.“
Kjartani sýnist hann ekki vera á förum. Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann séð eitthvað þessu líkt segir Kjartan svo ekki vera þó hann hafi verið viðloðandi sjávarútveg lengi.