„Ég er mjög undrandi á niðurstöðunni og átti alls ekki von á henni. Einnig að þeir skuli endurmeta sönnunarfærsluna með þessum hætti í stað þess að ómerkja dóminn,“ segir Margrét Gunnlaugsdóttir, réttargæslumaður ungrar konu sem kærði tvo menn fyrir nauðgun í nóvember 2011. Þeir voru sýknaðir í Hæstarétti í dag.
Mennirnir voru dæmdir í fimm ára og fjögurra og hálfs árs fangelsi af fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur snemma á árinu. Fjórir af fimm hæstaréttardómurum komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri mennina sökum þess að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt þeirra. Einn hæstaréttardómari skilaði séráliti og vildi staðfesta dóm héraðsdóms.
Hæstiréttur gerir miklar athugasemdir við rannsókn málsins hjá lögreglu og segir að héraðsdómur hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig unnt væri að leggja frásögn konunnar til grundvallar í málinu, enda hafi gætt verulegs misræmis um mikilvæg atriði í skýrslum hennar hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá hafi farist fyrir að taka skýrslu af ýmsum tilgreindum vitnum í málinu, til dæmis vinnufélögum konunnar sem voru með henni þegar hún hitti mennina um nóttina.
„Þeir tala um að ekki hafi verið talað við þennan eða hinn en það varðar allt aðdraganda þess að hún settist inn í bílinn með þessum mönnum. En þeir voru ekki ákærðir fyrir að aka henni eitt né neitt. Það var ákært fyrir aðra hluti og því ekki aðalatriði í málinu að hún skuli fara upp í bílinn,“ segir Margrét.
Hún segir að aðalatriðið í málinu hafi verið hvort mennirnir hafi mátt gera sér grein fyrir því að konan var ekki samþykk kynmökunum. Konan var 19 ára gömul, smávaxin og grönn en mennirnir báðir vöðvastæltir, um 90 kg að þyngd og hávaxnir. Konan sagðist ekki hafa getað veitt þeim mótspyrnu en hafi þó reynt að ýta þeim frá sér og klórað annan þeirra á öðru læri þegar hann hélt um höfuð hennar. Það kom heim og saman við skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á manninum.
Héraðsdómur vísaði einnig til þess að mennirnir könnuðust við að konan hafi farið að gráta á meðan kynferðismökum þeirra við hana stóð. Þá bar lögreglumönnum auk læknis sem hittu hana eftir atvikið saman um að konan hafi verið í miklu uppnámi, hún hafi grátið, titrað og skolfið.
Um þetta er hins vegar ekki fjallað í dómi Hæstaréttar og segir Margrét réttinn horfa of mikið til aðdraganda þess að konan fór upp í bíl með mönnunum og telur að það beri keim af gamaldags viðhorfum, s.s. að konan hafi tekið áhættu með því að stíga upp í bíl með mönnum sem hún þekkti ekki. „Þeir segja það ekki berum orðum en að gera svona mikið úr aðdragandanum finnst mér mjög einkennilegt.“
Þá bendir hún á að í vörn sinni hafi mennirnir haldið því fram að konan hafi orðið miður sín í miðjum samförum vegna þess að hún átti kærasta og allt í einu munað eftir honum. „En það lá fyrir í málinu að hún átti engan kærasta. Skiptir það engu máli? Og af hverju varð hún þá svona miður sín? Það er þá algjörlega óljóst. Það er ekki farið yfir það heldur aðeins vísað til þess að ekki hafi verið rætt við tilgreind vitni sem bera áttu um aðdragandann.“
Í sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur segir að þó svo að konan hafi borið með nokkuð mismunandi hætti um aðdraganda þess að hún fór inn í bifreiðina sé til þess að líta að rauður þráður sé í frásögn hennar. Þá hafi fjölskipaður héraðsdómur metið framburð konunnar trúverðugan og ekki sé ástæða til að vefengja það mat. „Að þessu öllu virtu er ekki slíkt ósamræmi í framburði stúlkunnar að líkur séu fyrir því að mat á sönnunargildi framburðar hennar sé rangt,“ segir í sératkvæðinu.
Margrét segir að meirihluti Hæstaréttar komist að allt annarri niðurstöðu og geri mjög mikið úr þessu ósamræmi. „Það er sannarlega eitthvert ósamræmi en ekki um það sem skiptir máli í þessu. Það fara fleiri blaðsíður í að það sé misræmi í frásögn hennar af því hvernig hún fór inn í bílinn. Ég bara skil þetta ekki.“
Í sératkvæðinu - og héraðsdóminum - er farið yfir afleiðingarnar fyrir konuna. Meðal annars vísað í vottorð sálfræðings þar sem kemur fram að konan hafi verið í meðferð frá desember 2011 og fram á þennan dag. Hún þjáist af þunglyndi og uppfylli öll greiningarmerki alvarlegrar áfallastreituröskunar. Einnig kom fram í vitnisburði sálfræðingsins að óvíst væri um batahorfur hennar.
„Það liggur fyrir að hún er mjög hrædd við þennan mann. Hún er búin að vera hrædd við hann allan tímann. Hún varð fyrir miklu áfalli og þurfti mjög mikla aðstoð og meðferð. Og þessi niðurstaða er sérstaklega mikið áfall fyrir hana,“ segir Margrét.
Ekki er hins vegar vikið að þessum þáttum í dómi Hæstaréttar. Þar segir hins vegar að ekki sé hægt að bæta úr annmörkum á rannsókn málsins hjá lögreglu nema að hluta. Ómerking dómsins geti ekki þjónað tilgangi og því verði að fella efnisdóm í málinu. Þá segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sekt mannanna og verði þeir því sýknaðir.
Málið dæmdu Hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.