Forsætisráðuneytið hefur skilað ráðherrabíl sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, lét panta skömmu áður en hún lét af embætti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ekur því um á bifreið sem keypt var í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar, árið 2004.
Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins og nánari umfjöllun um ráðherrabíla boðuð í prentútgáfu blaðsins sem kemur út á morgun. Í frétt blaðsins segir að Jóhanna hafi látið panta bifreið af gerðinni Mercedes Benz E250 CDI til reynslu, en listaverð bifreiðarinnar er í kringum 11 milljónir króna.
Bifreiðin átti að leysa af hólmi BMW 730 Li bifreið sem Jóhanna notaði áður, en sá var keyptur nýr árið 2004. Af því verður ekki þar sem Sigmundur Davíð hefur ákveðið að skila Benz bifreiðinni.