„Sumarið er komið fyrir löngu“

Kristín Hermannsdóttir er hætt sem veðurfræðingur
Kristín Hermannsdóttir er hætt sem veðurfræðingur mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sumarið er komið fyrir löngu,“ segir Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur en margir landsmenn hafa látið veðrið trufla sig að undanförnu og lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir sumrinu um helgina.

Kristín sagði landsmönnum veðurfréttir í Ríkissjónvarpinu í fyrrakvöld og kvaddi þar með þann vettvang, að sinni í það minnsta. Hún tekur við starfi forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands 1. júlí næstkomandi og flytur því með fjölskyldu sinni til Hafnar í Hornafirði, en þar ólst hún upp til 16 ára aldurs.

Hún segir að standist veðurspá ekki hringi fólk oft í Veðurstofuna og kvarti. „Það vill alltaf sjá þetta gula á himninum og núna finnst fólki sumarið ekki vera komið.“

En veðurfræðingar fá ekki aðeins að heyra kvart og kvein. „Einstaka sinnum hringir fólk og þakkar fyrir sig,“ segir Kristín. Hún bætir við að það eigi einkum við eftir að fólk hafi haft samband og beðið um spá fyrir ákveðinn stað vegna til dæmis brúðkaups eða ættarmóts og góða spáin hafi ræst.

Að sögn Kristínar er veðrið öðruvísi á Höfn en í Reykjavík. „Rigningardagarnir eru álíka margir á Höfn og í Reykjavík en það rignir bara svolítið meira á Höfn þegar það rignir.“ Hún setur það ekki fyrir sig. „Rólegheit finnast mér best,“ segir veðurfræðingurinn um veðrið. „Það er ekki gott að hafa mikla sól. Þá fer hún bara í augun á manni og veldur því að það koma síðdegisskúrir. Það er oft betra að hafa skýjað og rólegheit.“

„Mig langaði til þess að breyta til, prófa eitthvað annað,“ segir Kristín Hermannsdóttir, sem hefur verið viðloðandi Veðurstofu Íslands í yfir tuttugu ár, byrjaði sem aðstoðarmaður veðurfræðings á Veðurstofunni 1992, lauk prófi í veðurfræði frá Háskólanum í Bergen í Noregi 2001 og hefur verið veðurfræðingur á Veðurstofunni síðan og einnig í Sjónvarpinu undanfarin níu ár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert