Sýknaðir af ákæru um nauðgun í Hæstarétti

mbl.is/GSH

Hæstiréttur sýknaði í dag tvo karlmenn sem Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi fyrir nauðgun í ársbyrjun. Niðurstaða héraðsdóms er gagnrýnd og segir í dómi Hæstaréttar að ákæruvaldinu hafi mistekist að sanna sekt mannanna. Fimm dómarar Hæstaréttar dæmdu í málinu en einn þeirra skilaði sératkvæði.

Þeir Stefán Logi Sívarsson og Þorsteinn Birgisson voru sakfelldir fyrir nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar. Þeir voru dæmdir fyrir að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað 18 ára stúlku til samræðis og annarra kynferðismaka, en þeir voru sakaðir um að halda í hendur hennar og nýta sér yfirburði vegna aðstöðu- og aflsmunar í nóvember 2011. Hlaut Stefán Logi fimm ára fangelsisdóm fyrir brot sitt og Þorsteinn fjögurra ára og sex mánaða fangelsi.

Meirihluti Hæstaréttar telur að í skýrslu stúlkunnar hjá lögreglu og fyrir dómi hefði gætt verulegs misræmis um ýmis mikilvæg atriði og að um önnur slík atriði hefði framburður hennar stangast á við sýnileg sönnunargögn. Hefði héraðsdómur ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig unnt væri að leggja frásögn stúlkunnar til grundvallar í málinu.

Þá hefðu verið annmarkar á rannsókn málsins hjá lögreglu sem ekki væri unnt að bæta úr nema að hluta. Þrátt fyrir þessa annmarka var það metið svo að ómerking héraðsdóms gæti ekki þjónað tilgangi og að leggja yrði efnisdóm á málið.

Það var því niðurstaða Hæstaréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt Stefáns og Þorsteins og voru þeir því sýknaðir.

Málið dæmdu Hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ingibjörg skilaði sératvæði en hún segir að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um að hafa nauðgað stúlkunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert