Á batavegi eftir fall af hestbaki

Börn í útreiðartúr. Mynd úr safni.
Börn í útreiðartúr. Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir

„Það hefur allt gengið rosalega vel,“ segir Sigurbjörg Magnúsdóttir, móðir fimm ára drengs sem hlaut innvortis blæðingar eftir að hafa dottið af hestbaki þegar bíll flautaði á hóp barna í útreiðartúr í hestahverfinu í Garðabæ fyrir viku. „Hann er allur að braggast og blóðprufur sýna að það hefur ekki orðið nein frekari blæðing frá fyrstu dögunum.“

Patrekur Jóhannesson hlaut við fallið mikla áverka á lifur og innvortis blæðingar í kviðarholi. Hann dvaldi í sólarhring á gjörgæsludeild en var því næst fluttur á Barnaspítala Hringsins. Sigurbjörg segir hann vera á hröðum batavegi. „Hann fékk að fara í fyrsta skipti úr rúminu í gær og fór í hjólastól. Það var svolítið skrýtið fyrir hann að standa upp eftir langa rúmlegu en það gekk allt vel,“ segir hún. Búist er við að Patrekur verði útskrifaður á næstu dögum en hann verður að taka því rólega næstu vikurnar og vera undir stöðugu eftirliti foreldra sinna. „Það þarf að fara eftir vissum reglum sem eru settar fyrir hann um hvernig hann má hreyfa sig og hvað má gera. Það verður líklega næstu sex vikurnar því lifrin var mjög illa farin og hann þarf að taka því rólega svo hún verði ekki fyrir neinu hnjaski.“

Sigurbjörg segir að andleg líðan Patreks sé góð. „Hann hefur tekið þessu af miklu jafnaðargerði og það er ótrúlegt hvað hann hefur tekið tilsögn og verið jákvæður.“ Hann segist ekki vera hræddur við að fara aftur á hestbak. „Hann langar að fara upp í hesthús og kíkja á hestana. Það virðist ekki vera neinn geigur í honum en það fyrsta sem hann spurði um eftir að hann varð rólegur fyrsta daginn var hvar hestarnir væru og hvort það væri í lagi með þá. Það voru hans helstu áhyggjur.“

Þegar fyrstu fréttirnar af málinu voru fluttar birtist með símanúmer Sigurbjargar þar sem hún óskaði eftir upplýsingum um ökumann bílsins. Hún segist engin símtöl hafa fengið en aftur á móti hafi henni borist nokkur skilaboð í gegnum tölvu. Lögreglan rannsakar málið.

Frétt mbl.is: Hlýtur að hafa séð börnin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert