Ákvörðun tekin á morgun

Frá Þjórsárverum.
Frá Þjórsárverum. Brynjar Gauti

Aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra segir að tekin verði ákvörðun á morgun um hvort undirritun friðlýsingar vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum fari fram eins og boðað var. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur farið fram á það að undirrituninni verði frestað og málið skoðað betur.

Á vefsvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytis var í dag birt tilkynning um að undirritunin fari fram kl. 15 á morgun í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar segir einnig undanfarin ár hafi verið unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009-2013. Svæðið var friðlýst árið 1981 og náði þá til 375 ferkílómetra en með stækkuninni yrði friðlandið alls 1.563 ferkílómetrar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að hún teldi málsmeðferðina óviðunandi og full ástæða væri til að staldra við. Hún hefði því farið fram á það við umhverfis- og auðlindaráðherra að hann frestaði þessari undirritun.

Hún segir að svo virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Landsvirkjunar sem fyrirtækið sendi Umhverfisstofnun Í byrjun apríl síðastliðins. „Um er að ræða einn stærsta hagsmunaaðilann á svæðinu sem eðlilegt hefði verið samkvæmt lögum að ráðfæra sig við í þessu ferli.“

Ekki hefur náðst í Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í kvöld en Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður hans, segir að málið verði skoðað á morgun og í kjölfarið tekin ákvörðun um hvort undirrituninni verði frestað.

Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og vestan Hofsjökuls og …
Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og vestan Hofsjökuls og svo tillögu að stækkun friðlandsins um Þjórsárver. mbl.is/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert