Lögreglan endurskoðar vinnubrögð

mbl.is/Brynjar Gauti

„Það skiptir miklu máli fyrir okkur að skoða atriðin sem Hæstiréttur finnur að hjá lögreglu og endurskoða vinnubrögð okkar. Þarna hefði mátt rannsaka betur atvik sem ákærðu í málinu lýstu og voru til þess fallin að staðfesta framburð þeirra,“ segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hæstiréttur sýknaði í gær Stefán Loga Sívarsson og Þorstein Birgisson af ákæru um nauðgun, en Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi þá báða í byrjun árs. Annmarkar voru sagðir hafa verið á rannsókn málsins hjá lögreglu sem ekki væri unnt að bæta úr nema að hluta.

Jón segir að hafa þurfi í huga að Hæstiréttur hafi sýknað mennina vegna þess að verulegur vafi var á að atvikin, sem ákært var fyrir, hafi átt sér stað. Lögreglan taki þó gagnrýni Hæstaréttar alvarlega „vegna þess að þarna er vísbending um það að við höfum um of fókuserað á framburð og atvik brotaþolans,“ segir Jón.

„Aldrei of oft gætt að þessum atriðum“

Spurður hvort hægt sé að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig segir Jón lögregluna alltaf vera á tánum þegar komi að rannsókn mála. „Þar er aldrei of oft gætt að þessum atriðum, að rannsaka og halda til haga upplýsingum um hin smæstu atriði sem oft og tíðum við rannsókn eru ekki talin skipta máli en er mikið atriði að halda til haga fyrir dóminn þegar að því kemur, þannig að dómarinn geti tekið sömu afstöðu til atvikanna eins og menn gera á rannsóknarstigi.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Stefáns Loga, sagði í gær lögregluna hafa gengið út frá því að hinir ákærðu væru sekir. Jón segir það ekki rétt. „Við erum lögum samkvæmt bundnir af því að rannsaka jafnt það sem bendir til sakleysis eins og sektar en við gættum þarna ekki nægilega vel að því að tæma atriði sem sakborningar bentu á.“

Frétt mbl.is: Sýknaðir af ákæru um nauðgun í Hæstarétti

Keimur af gamaldags viðhorfum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert