350 milljónir til bænda á kalsvæðum

Tún á stórum svæðum norðanlands og austan ónýt vegna kals
Tún á stórum svæðum norðanlands og austan ónýt vegna kals mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,  um 350 milljóna króna stuðning við bændur á þeim svæðum sem urðu illa úti vegna kals og snjóþyngsla var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Meginhluti fjárins mun fara til endurræktunar á túnum og fer úthlutunin fram í gegnum Jarðræktarsjóð. Þá mun nokkur hluti upphæðarinnar renna til bænda sem hafa haft umtalsverðan kostnað vegna snjóþyngslanna.

Unnið er að útfærslu úthlutunarreglna í samvinnu ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands sem verða kynntar nánar síðar.

„Það er ljóst að tjónið er miklu meira en 350 milljónir og ekki er hægt að bæta allt tjón sem bændur urðu fyrir vegna kals í túnum en þetta er aðstoð sem kemur eitthvað til móts við tjónið,“  segir Halldór Runólfsson, skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert