Gæti haft víðtækar afleiðingar

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson lögmaður hans.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson lögmaður hans. mbl.is

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ritað ríkisstjórn Íslands bréf þar sem henni er gefin kostur á að setja fram athugasemdir við kæru Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Íslandi. Frestur til að skila greinargerðinni er til 26. september næstkomandi.

Jón Ásgeir, Tryggvi Jónsson og Fjárfestingafélagið Gaumur standa að kærunni en þeir telja að brotið hafi verið á mannréttindum þeirra með því að þeim hafi verið refsað tvisvar vegna sama atviks. Eftir rannsókn skattayfirvalda lagði ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd 25% álag á skatta þeirra fyrir árin 1998 til 2002. Síðar dæmdi Hæstiréttur þá í skilorðsbundið fangelsi og til að greiða sektir fyrir brotin.

Auk þess að gefa íslenska ríkinu kost á að setja fram athugasemdir við kæruna er leitað afstöðu ríkisins ti þess hvort málsmeðferðin samrýmist banni við það að sami aðili þurfi að þola tvöfalda refsimeðferð sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 4. gr. 5. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, segir í tilkynningu að ef Mannréttindadómstóll Evrópu fallist á kröfur kærenda hefði það víðtækar afleiðingar hér á landi. „Nú eru fyrir dómstólum tugir skattamála þar sem hinum ákærðu hefur þegar verið refsað af stjórnvöldum. [...] Verði niðurstaðan sú að íslenska refsikerfið í skattamálum sé andstætt mannréttindasáttmálanum má ganga út frá því sem vísu að krafist verði endurupptku fjöldamargra dómsmála frá undanförnum árum þar sem refsað hefur verið vegna sama atviks. Í slíkum málum má reikna með að íslenska ríkið fái á sig kröfur um endurgreiðslu sekta auk skaðabótakrafna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert