Heimilislausum ítrekað vísað frá

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins var 111 heimilislausum karlmönnum vísað …
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins var 111 heimilislausum karlmönnum vísað frá Gistiskýlinu. mbl.is/Jakob Fannar

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins var 111 heimilislausum karlmönnum vísað frá Gistiskýlinu vegna plássleysis. Á sama tíma í fyrra var 24 karlmönnum vísað frá af sömu ástæðu. Fjallað var um málið á síðasta fundi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.

Sigtryggur Jónsson framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða kom á fundinn og kynnti stöðu utangarðsfólks í Reykjavík. Eftir umræður lét mannréttindaráð bóka hvatningu til þess að húsnæðisvandi Gistiskýlisins, sem ætlað er heimilislausum körlum í borginni, verði leystur sem allra fyrst.

Þórir Haraldsson, yfirmaður í Gistiskýlinu, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að þessi mikla eftirspurn eftir húsaskjóli sé óvenjuleg og biðröð sé farin að myndast biðröð fyrir utan húsnæðið áður en opnað er. Hann segir að langtímaáhrif kreppunnar séu að koma í ljós.

Gistiskýlið sem er í Þingholtsstræti er rekið í samvinnu við Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Þar eru rúm fyrir 20 manns. Skýlið er opið frá klukkan 17 til klukkan 10 næsta dags, alla daga ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka