Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden er kominn til Moskvu höfuðborgar Rússlands en flugvél rússneska flugfélagsins Aeroflot sem hann ferðaðist með frá Hong Kong lenti þar skömmu eftir klukkan eitt að íslenskum tíma. Þaðan á hann pantað flug til Havana höfuðborgar Kúbu á morgun og síðan áfram til Caracas höfuðborgar Venesúela.
Haft er eftir farþegum í flugvélinni sem Snowden ferðaðist með í frétt AFP að hann hafi ekki yfirgefið hana með landganginum eins og aðrir farþegar. Einhverjir farþeganna sáu bifreið sem lagt hafði verið við hlið flugvélarinnar og þrjár töskur fluttar úr flugvélinni í hana. Bifreiðin ók síðan að flugstöðinni. Heimildarmenn AFP fréttaveitunnar segja að bifreið frá sendiráði Ekvadors hafi beðið við flugstöðina. Rússneskir fjölmiðlar telja hugsanlegt að Snowden verði í nótt í sendiráði einhvers Suður-Ameríkuríkis.
Engar fyrirskipanir um að handtaka Snowden
Fram kemur einnig í fréttum AFP að bandaríska dómsmálaráðuneytið hafi sent frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram komi að stjórnvöld í Bandaríkjunum ætli að óska eftir samstarfi við lögregluyfirvöld vegna málsins í þeim ríkjum sem Snowden á leið um. Ákæra var gefin út á hendur honum í Bandaríkjunum fyrir helgi en hann lak upplýsingum í fjölmiðla um víðtækt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) í fjölmiðla. Snowden er fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA.
Rússnesk lögregluyfirvöld á flugvellinum þar sem Snowden lenti hafa ekki fengið neinar fyrirskipanir um að handtaka hann. Bandaríkjamenn höfðu áður óskað eftir því að hann yrði handtekinn í Hong Kong en þarlend stjórnvöld segjast ekki hafa getað komið í veg fyrir að hann færi til Moskvu þar sem þau hafi þurft frekari upplýsingar um málið frá Bandaríkjamönnum til þess að uppfylla skilyrði þarlendra laga.
Telur að Snowden ætli til Íslands um Noreg
Haft er eftir Øystein Jakobsen, leiðtoga Pírataflokksins í Noregi, á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK að hann telji að Snowden sé ekki á leið til Suður-Ameríku heldur ætli hann til Íslands í gegnum Noreg. Hann segist hafa fengið skilaboð í gegnum alþjóðasamtök Pírata að Snowden komi til Óslóar í kvöld með flugi. Ástæðan fyrir því sé væntanlega sú að hans sögn að þaðan sé auðveldast að komast til Íslands. Jakobsen segist ætla að mæta á Gardemoen-flugvöllinn við Ósló ef Snowden kemur þangað í kvöld.