MAST stöðvaði á föstudaginn dreifingu afurða og dýra frá Brúarreykjum efh. Þetta er í annað skipti á sjö mánuðum sem búið er svipt framleiðsluleyfi, en að sögn lögfræðings MAST kemur sviptingin til vegna lyfjamála.
Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins í dag. Bannið tók gildi þegar í stað og tekur til mjólkur, sláturgripa, sem og lifandi gripa. Á vefnum segir að bannið kom til vegna gruns á broti á löggjöf um notkun dýralyfja og löggjöf um matvælaframleiðslu. Búið var svipt starfsleyfi í desember á síðasta ári vegna brota á reglum um hollustuhætti en fékk leyfið aftur eftir endurbætur.
Í tilkynningu sem MS sendi frá sér í dag kemur fram að engin mjólk frá Brúarreykjum hafi farið til vinnslu og sölu hjá MS frá 2. desember 2012. Þegar búið fékk aftur leyfi sem bundið var ákveðnum fyrirvörum af hálfu Matvælastofnunar, hafi Mjólkursamsalan ákveðið að nýta ekki mjólk frá búinu til vinnslu og sölu.
Ekki er ljóst hvort einhverjum gripum frá búinu hefur verið slátrað nýverið, en bann MAST nær einnig til kjötafurða sem og sölu lífdýra.