Ekki er búið að finna allt sauðfé sem varð úti á Norðausturlandi í óveðrinu mikla sem skall á september sl. en í Suður-Þingeyjarsýslu er enn víða mjög snjóþungt á fjöllum. „Við erum ekki farnir að sjá þau einu sinni,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, stjórnarformaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
„Það er ofboðslegur snjór ennþá frá því í haust á þessum svæðum þar sem við vorum að missa mikið,“ segir Þórarinn Ingi sem rak um helgina fé um 15 km leið um Leirdal skammt frá Grenivík. Þar mátti sjá fannhvíta jörð svo langt sem augað eygði, eins og meðfylgjandi myndir sýna.
„Það var gríðarlegur snjór og hann er ekkert farinn allsstaðar af fjöllunum. Það má væntanlega búast við því að mikið af þessum hræjum, sem þarna eru, það séu gripir sem hafa leitað skjóls í giljum,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda.
„Við förum ekki að sjá neitt fyrr en í lok júlí, myndi ég segja, á þessu svæði,“ bætir Þórarinn Ingi við.
Samtökin segja af yfir 10.000 kindur og lömb hafi drepist óveðrinu og um áramót bætti Bjargráðasjóður tjón vegna um 8.000 dýra. Mun fleiri dýr fundust hins vegar á lífi. „Ég get alveg fullvissað þig um það að það var mun hærri tala heldur en drapst,“ segir Þórarinn Ingi.
Spurður út í tjón á girðingum, segir Þórarinn að ekki sé búið að bæta það. „Ég þekki ekki alveg hvernig staðan er á því núna en það er feiknarlegt tjón.“