Greiðslur um 7.000 lífeyrisþega munu hækka, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkar verulega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri, verði frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um afnám ýmissa skerðinga samþykkt. Hún kynnti frumvarpið á fundi í velferðarráðuneytinu í dag og verður það lagt fram á Alþingi síðar í dag.
Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutrygginga hækkar úr 480.000 kr á ári í 1.315.000 kr á ári. Þá munu lífeyrissjóðstekjur ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga.
Frumvarpið kveður einnig á um að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar verði auknar og aðgangur stofnunarinnar að upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við ákvörðun bóta er rýmkaður.
Verði frumvarpið að lögum aukast framlög ríkisins til almannatrygginga um 850 milljónir króna á þessu ári og um 1,6 milljarð árið 2014 þegar áhrif breytinganna eru komin fram á fullu.
Hækkanir á greiðslum til lífeyrisþega samkvæmt framantöldum breytingum taka gildi 1. júlí nk. og koma til framkvæmda 1. ágúst.