Stúlkurnar tvær sem dvelja í fangelsi í Prag verða yfirheyrðar á fimmtudag og föstudag. Þetta segir Þórir Gunnarsson, ræðismaður Íslands í Tékklandi. Hann er nú staddur í Prag og hefur heimsótt stúlkurnar sem setið hafa í gæsluvarðhaldi frá því í nóvember á síðasta ári vegna gruns um fíkniefnasmygl.
Til stóð að yfirheyra stúlkurnar í dag en að sögn Þóris var yfirheyrslunum frestað vegna þess að túlkurinn var ekki við. Nýlega var nýr saksóknari skipaður í málinu og segir Þórir að það hafi hægt á gangi málsins, en hann hafi þurft að setja sig inn í málið.
„Stúlkurnar bera sig mjög vel miðað við aðstæður,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is. Hann segir þær brattar en þó séu þær á nálum vegna óvissunnar. Aðbúnaður þeirra er að sögn Þóris ágætur.
Þórir segir óvíst hvenær ákæra verður gefin út í málinu, en það hefur dregist verulega. Stúlkurnar eru báðar 18 ára.