Verjendurnir vilja rannsaka málið

Aurum málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lárus Welding ásamt …
Aurum málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lárus Welding ásamt verjanda sínum, Óttari Pálssyni. mbl.is/Styrmir Kári

Verjendur í Aurum-málinu svonefnda hafa gert kröfu um aðstöðu og aðgang að öllum gögnum sem lögregla aflaði við rannsókn málsins og varða skjólstæðinga þeirra. Sérstakur saksóknari hafnar kröfunni og segir ekki hægt að biðja um ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum. Rannsókn sakamála sé samkvæmt lögum í höndum lögreglu ekki verjenda.

Málflutningur um kröfuna fór fram við þinghald í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Í Aurum-málinu eru ákærðir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson fyrir umboðssvik - og hlutdeilt í þeim - sem eru sögð hafa átt sér stað þegar Glitnir veitti félaginu FS38 sex milljarða króna lán til kaupa á félaginu Aurum Holding.

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, mælti fyrir hönd allra verjenda og gerði þá kröfu að þeir fái aðstöðu hjá sérstökum saksóknara til að kynna sér öll gögn sem lögregla hefur aflað í tengslum við rannsókn málsins og varði skjólstæðinga þeirra. „Nú er það þannig, eins og fram hefur komið, að ýmissa gagna hefur verið aflað í tengslum við þetta mál sem ekki hafa verið gerð að eiginlegum rannsóknargögnum. [...] Það er ekki lögreglu eða ákæruvaldsins að afmarka það eða ákveða fyrir sitt einsdæmi hvað teljist til gagna máls í þessum skilningi.“

Hann sagði sakborninga í málinu ekki geta treyst því í blindni að hlutlægni sé gætt auk þess sem lögreglu og ákæruvaldinu geti yfirsést atriði sem verjendur sjá. Þeir þurfi því að hafa tækifæri til að kanna hvort svo sé. „Þó það sé lögreglu að rannsaka mál er ekkert í lögunum sem útilokar að verjendur rannsaki mál einnig. Það er afar mikilvægt að verjendur hafi aðgang og tækifæri til að kynna sér allt það sem lögregla hefur gert í málinu.“

Í 37. grein laga um meðferð sakamála segir: „Verjandi skal jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu.“ Hins vegar segir í 3. mgr. sama ákvæðis: „Enn fremur getur lögregla synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef öryggi ríkisins eða almennings er í húfi ellegar brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans eða samskipti við yfirvöld í öðrum ríkjum standa því í vegi.“

Óttar kom að þessu og sagði að sá aðgangur verði ekki takmarkaður nema fram fari sérstakt mat á því hvort það eigi við þetta ákvæði, þ.e. að ákæruvald skuli ganga úr skugga um hvort einkahagsmuni standi í vegi fyrir aðgangi að umræddum gögnum.

Hlutverk ákæranda að taka saman gögn máls

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði kröfu verjendanna gríðarlega umfangsmikla. Ekki sé bent á nein tiltekin gögn sem verjendur telji að skipti máli heldur óskað eftir því að þeir geti hafið sjálfstæða rannsókn á málinu. „Ef við berum kröfuna saman við löggjöfina þá er sérstaklega tekið fram að rannsókn sakamála sé í höndum lögreglu. Þetta er afmarkað hlutverk lögreglunnar.“

Hann sagði lögreglu hafa ákveðnar heimildir þegar kemur að því að afla gagna en aðeins þau gögn sem varða tiltekið mál séu gerð að rannsóknargögnum. Í þessi máli hafi verjendur skýrslu yfir þau gögn sem lagt var hald á og sé því í lófa lagið að afmarka kröfu sína. „Hlutverk ákærenda er að taka saman það sem hann telur vera gögn málsins.“

Þá benti hann á að allt aðrar skyldur hvíli á verjendum sakborninga en lögreglumönnum. Þeir séu ekki bundnir sömu þagnarskyldu og ef krafa verjendanna væri samþykkt hefðu þeir aðgang að gríðarlega viðkvæmum persónuupplýsingum, bæði upptökum af símhlustunum og tölvubréfum, sem lögregla telur ekki varða málið. Með því að veita þann aðgang væri freklega gengið á rétt þriðja manns.

Ólafur tók ennfremur fram að gagnaöflun lögreglu hafi verið mjög umfangsmikil og snerti hún fleiri en sakborninga í þessu máli. Fleiri mál sem varði Glitni hafi verið til rannsóknar og því sé skörun í gögnunum. Rannsókn lögreglu hafi því meðal annars snúið að því að vinna úr gögnunum og vinsa út það sem ekki varðar sakarefnið.

Afmörkun á sér ekki stoð í lögum

Óttar tók til máls öðru sinni og sagði greinilegt að sérstakur saksóknari misskilji kröfugerðina. „Það er ekki krafist ótakmarkaðs aðgangs að öllum gögnum. Það er skýrt að þess er krafist að verjendur fái aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað hefur verið í tengslum við rannsókn þessa mál. Meðan verjendur hafa ekki yfirlit yfir þau gögn geta þeir ekki afmarkað kröfuna frekar. Þeir geta ekki vísað til einstakra skjala vegna þess að þeir hafa ekki upplýsingar um það hvaða gögn er um að ræða.“

Hann sagði einnig að það eigi sér hvergi stoð í lögum að það sé lögreglu og ákæruvalds að afmarka hvað teljist til gagna máls. Og þó svo rannsóknin hafi snúið að fleiri málum geti lögregla ekki borið fyrir sig að hafa farið offari í öflun gagna. „Hún verður að takmarka rannsóknaraðgerðir sínar við gögn sem talin eru hafa þýðingu.“ Hann skýrði þetta frekar á þann hátt að lögregla geti ekki borið fyrir sig að hún hafi aflað svo mikils fjölda gagna að það sé ómögulegt að leyfa verjendum að fara yfir þau.

Milljónir tölvubréfa og þúsundir símtala

Lokasvarið átti Ólafur Þór og sagðist ætla að setja kröfuna í raunhæft samhengi. „Með kröfunni er farið fram á að lögregla fari yfir öll gögn, hvert einasta símtal og tölvupóst, til að athuga hvort þar séu brýnir hagsmunir annarra en ákærðu og af þeim sökum verði að halda þeim frá verjendunum. Þetta er einfaldlega ekki hægt. Krafa verjenda stendur til þess að lögregla þurfi að leggjast í þá vinna að fara yfir milljónir tölvubréfa og þúsundir símtala til að athuga þetta.“

Þá áréttaði saksóknari að verjendur færu fram á að rannsaka málið en það væri á hendi lögreglu og alls ekki skilgreint hlutverk verjenda.

Yfirmat á verðmati tilbúið í haust

Að loknum málflutningi var krafan tekin til úrskurðar og er gert ráð fyrir að hann verði kveðinn upp snemma í næstu viku. Eins og dómarinn komst að orði þá skiptir það þó litlu hvað tímaramma málsins varðar því sama hver niðurstaðan verður mun hún kærð til Hæstaréttar.

Tímaramminn stýrist enda ekki aðeins af þessu atriði heldur einnig yfirmati dómskvaddra matsmanna í einkamáli sem þrotabú Glitnis höfðaði. Í því fóru lögmen stefndu fram á að gert yrði verðmat á Aurum. Undirmatið var lagt fram af sérstökum saksóknara í þessu máli - þó hann hafi ekki aðkomu að einkamálinu - og því halda verjendur því fram að eðlilegt sé að yfirmatið verði einnig hluti af gögnum málinu. Hefur því ekki verið mótmælt.

Samkvæmt því sem kom fram við fyrirtökuna í morgun þá fór fram matsfundur í síðustu viku. Funduðu þá yfirmatsmenn með núverandi og fyrrverandi fyrirsvarsmönnum félagsins. Og þó svo það hafi ekki verið gefið út formlega er gert ráð fyrir að matsferlinu ljúki í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka