Guðni Páll Viktorsson kajakræðari þveraði í gær Húnaflóann þar sem hann er breiðastur og réri alls 60 kílómetra. Hann er nú á Skagaströnd en verði engir aukakrókar á hann eftir 720 kílómetra til Hafnar í Hornafirði.
Guðni Páll hefur róið samtals 1.338 km síðan hann lagði af stað í hringferðina um landið þann 30. apríl sl. Í gær réri hann 36 km frá Drangsnesi að Hindisvík, nyrst á Vatnsnesi. Eftir einnar klukkustundar stopp hélt hann áfram til Skagastrandar en þangað voru 24 km.
Á vefsíðu Kayakklúbbsins kemur fram að Guðni Páll hafi verið mjög hress eftir þennan mikla róður, þótt það hafi reynt á andlegan styrk að róa einn í ellefu klukkustundir, og hafi móttökurnar á Skagaströnd verið líkt og konungur væri kominn að landi. Væri hann afar þakklátur fyrir þessar góðu móttökur.