Haldið verði áfram með athugun sæstrengs

Gunnar Tryggvason afhenti Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra skýrsluna í dag.
Gunnar Tryggvason afhenti Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra skýrsluna í dag. mbl.is/Rósa Braga

Ráðgjafahópur um lagningu særaforkustrengs segir að það þurfi frekari upplýsingar til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja særaforkustreng milli Íslands og Bretlands. Lagt er til að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi.

Hópurinn skilaði tillögum sínum til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra í hádeginu. Þar fór Gunnar Tryggvason, formaður nefndarinnar, yfir störf hópsins og niðurstöður.

Nauðsynlegt að eyða óvissu

Gunnar sagði á fundinum, að nauðsynlegt væri að halda áfram með athugun málsins „til þess, eins og kostur er, að eyða þeirri óvissu í forsendum sem eru tiltölulega miklar að þessu sinni, enda treystir nefndin sér ekki til að álykta um þjóðhagslega hagkvæmni þess, heldur segjum við að líkur séu á eða vísbendingar séu um að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt. En forsendurnar eru það óvissar ennþá að að taka þarf skref í þá átt að nálgast sterkari fótfestu í þeim.“

Hann bætti við að hópurinn leggi til tvær leiðir. „Annars vegar að íslensk stjórnvöld hefji viðræður við Breta um með hvaða hætti íslensk orka gæti verið seld - á hvaða kjörum og til hversu langs tíma - í Bretlandi; hvort hún myndi falla undir þeirra ívilnunarkerfi um umhverfisvæna orku. Og í öðru lagi að Landsneti - og í samstarfi við Landsvirkjun og eftir atvikum önnur orkufyrirtæki - yrði heimilað að hefja viðræður við mótaðila við hinn enda strengsins um rekstur og eignarhald strengs. Í þessum viðræðum myndi koma miklu betri fótfesta undir forsendurnar sem þarf til að meta á endanum þjóðhagslega hagkvæmni strengsins,“ sagði Gunnar.

Stórar spurningar sem þarf að svara

Ragnheiður Elín sagði að farið verði yfir tillögur nefndarinnar í ráðuneytinu. „Við förum yfir þessi álitamál, skoðum vel þær sjö tillögur sem nefndin leggur til og metum svo næsta skref. Þetta eru stórar spurningar sem hér eru undir, en við byrjum hvern leiðangur á því að taka fyrsta skrefið,“ sagði ráðherra og þakkaði nefndinni fyrir vel unnin störf.

Ráðgjafarhópurinn var settur á laggirnar fyrir réttu ári af iðnaðarráðherra til að kanna nánar þann möguleika að leggja sæstreng fyrir raforku milli Íslands og Evrópu. Slík framkvæmd hefur um nokkurt skeið verið talin tæknilega möguleg og eru vísbendingar um að hún geti skilað nægjanlegri hagkvæmni. Hópnum var ætlað að greina nánar þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins, tæknileg og umhverfisleg atriði ásamt lagaumhverfi og milliríkjasamningum.

Hópurinn var skipaður aðilum frá öllum þingflokkum, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtökunum, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landsneti, Landsvirkjun, Samorku og Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Liggur mest á að vanda sig

Forsendur enn of veikar

Nánar á vef ráðuneytisins

Gunnar Tryggvason, formaður ráðgjafahópsins.
Gunnar Tryggvason, formaður ráðgjafahópsins. mbl.is/Rósa Braga
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók á móti tillögum …
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók á móti tillögum hópsins í atvinnuvegaráðuneytinu í dag. mbl.is/Rósa Braga
Sæstrengir tengdir Íslandi.
Sæstrengir tengdir Íslandi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert