27 heimilislausar konur í Konukoti

Konukot er athvarf fyrir konur sem hafa hvergi höfði sínu …
Konukot er athvarf fyrir konur sem hafa hvergi höfði sínu að að halla. Þangað mega þær koma þótt þær séu undir áhrifum en mega ekki neyta vímuefna á staðnum. Rax / Ragnar Axelsson

„Það hafa leitað fleiri konur til okkar á þessu ári heldur en í fyrra og sumar koma nú á hverju kvöldi,“ segir Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Konukots, um aðsókn heimilislausra kvenna í gistingu í Konukoti, sem er næturathvarf fyrir heimilislausar konur. Rauði krossinn í Reykjavík rekur Konukot skv. þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

„Við erum með átta næturpláss en við höfum tekið fleiri í hús á einu kvöldi, því við erum með opið í 19 klukkutíma og sumar koma til að þiggja það sem þarna er í boði eins og mat, hreinlæti og húsaskjól án þess að þiggja næturgistingu. Þá fara ekki allar í háttinn á sama tíma,“ segir Kristín Helga og því oft hægt að nýta hvert gistipláss tvisvar yfir sömu nótt.

Fleiri konur í ár en í fyrra

Fyrstu fjóra mánuði ársins komu um 20-27 konur í hverjum mánuði í Konukot, en á sama tíma í fyrra voru þær 16-20. Kristín Helga segir minna um það að konur komi bara yfir eina nótt. „Þær sem nýta sér Konukot koma oftar í mánuði.“

Fjöldi gistinátta hefur því aukist verulega en á fyrstu fjórum mánuðum ársins var fjöldi gistinátta 200-264, en á sama tíma í fyrra frá 105 til 131. Í maí virðist þó heldur hafa dregið úr fjölda kvenna.

„Ég veit ekki hvort það sé einhver ákveðin skýring til, en ég ímynda mér að húsnæði sem oft stóð þessum aðilum til boða, eins og kjallaraherbergi eða kvistherbergi, sé það ekki lengur, aðrir nýti það núna þar sem leiguverð hefur hækkað,“ segir Kristín Helga.

Konukot er ætlað konum sem eiga hvergi höfði sínu að að halla og þurfa stað til að sofa á. Flestar þeirra stríða við vandamál tengd neyslu áfengis og/eða fíkniefna. Boðið er upp á kvöldverð og léttan morgunverð. Þar geta konur þvegið af sér og farið í sturtu, auk þess sem þær geta fengið fatnað. Neysla áfengis og annarra vímuefna er ekki leyfð í athvarfinu, en konum er ekki meinaður aðgangur þó þær séu undir áhrifum þegar þær mæta á staðinn.

Leysa brýnasta vandann

Mikil umræða hefur verið um fjölgun heimilislausra, þar sem Gistiskýlið í Reykjavík hefur nú verið að vísa um hundrað heimilislausum karlmönnum frá fyrstu mánuði ársins, en á sama tíma í fyrra voru þeir rétt tæplega þrjátíu. Þá hefur lögreglan einnig orðið vör við fjölgun og segir ástandið hafa snarversnað, en á hverju kvöldi er óskað eftir gistingu í fangageymslum lögreglunnar.

„Fjölgunin er auðsjáanlega meiri hjá körlunum, en er samt sem áður meðal kvenna líka. En við höfum náð að leysa brýnasta vandann hjá heimilislausum konum,“ segir Kristín Helga, en að sögn lögreglu biðja konur sárasjaldan um gistingu í fangageymslum og virðast því flestar leita í Konukot.

Heimilislausir tíðir gestir í fangelsi

Konurnar sem sækja Konukot gista mun oftar yfir mánuðinn en …
Konurnar sem sækja Konukot gista mun oftar yfir mánuðinn en í fyrra.
Fleiri konur sækja nú Konukot en á sama tíma í …
Fleiri konur sækja nú Konukot en á sama tíma í fyrra.
Rauði krossinn í Reykjavík
Rauði krossinn í Reykjavík
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert