Tæknitímaritið Wired hefur birt ítarlega umfjöllun um Sigurð Inga Þórðarson, sem hefur verið kallaður Siggi hakkari, undir yfirskriftinni „Sjálfboðaliði Wikileaks var uppljóstrari á launaskrá FBI“. Fjallað er um tengsl hans við Julian Assange, stofnanda Wikileaks, og samskipti við FBI (bandarísku alríkislögregluna).
Birt eru tölvupóstasamskipti sem eru sögð vera á milli fulltrúa FBI og Sigurðar, en blaðamaður Wired ræddi við Sigurð og fékk frá honum bæði gögn og ljósmyndir. Í fréttinni er einnig rætt við Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata.
Í greininni segir að Sigurður, sem er aðeins tvítugur, hafi starfað lengi sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks, haft beinan aðgang að Assange og verið í lykilstöðu sem skipuleggjandi.
„Þegar hann gekk inn í sendiráðið [bandaríska í Reykjavík í ágúst 2011] í kaldastríðsstíl, þá varð hann eitthvað annað: fyrsti uppljóstrari FBI innan Wikileaks sem vitað er um. Næstu þrjá mánuði þjónaði Sigurður tveimur herrum; hann vann fyrir uppljóstrunarvefsíðuna og á sama tíma upplýsti hann bandarísk stjórnvöld um leyndarmál hennar, og í staðinn, að hans sögn, fékk hann samtals um 5.000 dali (um 620 þúsund kr.),“ segir í frétt blaðamannsins Kevins Poulsens hjá Wired.
Þá segir að Sigurður hafi, í boði bandarísku alríkislögreglunnar, flogið til útlanda til að funda með fulltrúum FBI, m.a. til Washington. Á síðasta fundinum afhenti Sigurður þeim átta harða diska sem voru fullir af gögnum sem tengdust Wikileaks, s.s. myndskeið og samskipti á spjallvefjum.
Bent er á að það sé sjaldgæft að mönnum gefist tækifæri að fá innsýn inn í rannsókn bandarískra lögregluyfirvalda á Wikileaks. Tvöfalt líf Sigurðar sýni fram á hversu langt ríkisstjórn Bandaríkjanna sé reiðubúin að ganga til að elta uppi Julian Assange, með því að nálgast Wikileaks með aðferðum sem FBI þróaði í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi og tölvuglæpi. Aðferðirnar minni einnig á það hvernig starfsmenn FBI laumuðu sér inni í samtök sem berjast fyrir borgaralegum réttindum á tímum J. Edgar Hoover, fyrrverandi yfirmanns bandaríku alríkislögreglunnar.
„Ég var viðstödd þegar Julian hitti hann [Sigurð] í fyrsta eða annað sinn,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Hún starfaði með Wikileaks í tenglsum við birtingu myndbands, sem kallaðist Collateral Murder, sem sýndi árás bandrískrar herþyrlu á almenna borgara í Írak.
„Ég varaði Julian við strax á fyrsta degi, það var eitthvað sem var ekki alveg í lagi í tengslum við þennan náunga [...] Ég bað um að hann yrði ekki hluti af Collateral Murder-teyminu,“ segir Birgitta. Hún segir ennfremur að Sigurður eigi mjög bágt með að segja mönnum satt.