Aðsókn í kennaranám í Háskóla Íslands hefur dregist mikið saman á undanförnum árum, en árið 2008 voru sett lög sem lengdu skyldunám til kennarastarfa úr þremur árum í fimm ár. Í ár hafa 160 nemendur sótt um nám í grunnskólakennarafræðum í deildinni en það er 31,6% fækkun frá árinu 2010 þegar 234 nemendur sóttu um.
Mikið brottfall er einnig í náminu. Sem dæmi má nefna að í leikskólakennarafræðum hófu 45 nemendur nám árið 2010, en í vor útskrifuðust 20 nemendur, eða 44%.
Anna Kristín Sigurðardóttir, forseti kennaradeildar, segir að fækkun nemenda og brottfall eigi sér margþættar skýringar, en laun, lengd námsins og starfsaðstæður skipti miklu máli. Hún telur þó að um tímabundið ástand sé að ræða og nefnir því til stuðnings að í nágrannalöndunum sé kennaranám jafnlangt eða lengra en hér á Íslandi, án teljandi áhrifa á aðsókn til námsins.
Anna Kristín segir að styðja verði vel við nemendur deildarinnar og tengja þá betur við starfið, en um 50% kennara hætta kennslu eftir fyrsta ár í starfi. „Við viljum skila áhugasömum og kraftmiklum kennurum út á vinnumarkaðinn,“ bætir Anna Kristín við.