Gunnlaugur hleypur tíu maraþon

Gunnlaugur Júlíusson mun taka þátt í hlaupinu Thames Ring 2013. Hlaupið fer fram dagana 3. – 7. júlí í nágrenni Lundúna. Hlaupið er 248 mílna langt (um 400 km) eða tæp 10 maraþon. Hlaupararnir hafa að hámarki 100 klukkustundir til að ljúka því. Í ár taka 37 hlauparar þátt í Thames Ring.

Gunnlaugur hefur undirbúið sig vel en segir andlegan undirbúning jafnmikilvægan og þann líkamlega. Hann gerir ekki ráð fyrir því að sofa á milli hlaupatarna, „þó er hugsanlegt að ég taki mér kríu á þriðja sólarhringnum,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Maður heldur stanslaust áfram að hlaupa eins lengi og maður getur.“

- Þetta lítur út fyrir að vera öfgakennt álag á líkamann, ertu ekki hræddur um að ofgera þér?

„Nei, þetta er allt spurning um undirbúning. Ég myndi ekki ráðleggja neinum án reynslu að fara í þetta. Ég er búinn að fá reynslu af ýmsu og veit hvað má bjóða skrokknum.“

Hlaupið hefst í Streatley on Thames í London kl. 9:00 að staðartíma þann 3. júlí. Leiðin liggur meðfram Thames Path til Brentford og síðan meðfram Grand Union Canal til Braunston. Þar næst liggur leiðin meðfram Oxford Canal til Oxford og að lokum meðfram Thames sem leið liggur aftur til Streatley í London.

Hlaupinu skal lokið eigi síðar en kl. 13:00 á sunnudegi þann 7. júlí. Alls eru níu drykkjarstöðvar á leiðinni eða sem svarar á maraþonfresti. Veðurútlit er heldur gott eða um 20°C og þurrt.

Gras upp að brjósti

Gunnlaugur segir erfitt að segja til um hvað hlaupið muni taka hann  marga tíma. Margt spili þar inn í, s.s. veðrið og hlaupaleiðin. Í þessu hlaupi sé m.a. farið um hátt gras sem nái hlaupurum upp að brjósti.

„Til undirbúnings þessu hlaupi hef ég tekið þátt í tveimur 24 tíma hlaupum frá áramótum,“ segir Gunnlaugur. „Í febrúar tók ég þátt í 24 tíma hlaupi sem fór fram innandyra í Espoo í Finnlandi og síðan í HM í 24 tíma hlaupi sem fór fram í Steenbergen í Hollandi um miðjan maí.“

Gunnlaugur segir að þó hlaupið sé langt og muni taka langan tíma sé það ekki endilega það stærsta sem hann hefur tekið þátt í. „Ég hef hlaupið tæpa 360 kílómetra á tveimur sólarhringum,“ segir Gunnlaugur. En hins vegar geti verið erfiðara að fá lengri tíma til hlaupsins. „Tímamörkin geta bæði gert þetta léttara og erfiðara. Að fara í gegnum þrjár nætur er mjög þungt.“

Gunnlaugur er í þriðja sæti á heimslista í 24 tíma hlaupi af þeim sem eru 60 ára og eldri (204,5 km). Alls er hann í 129. sæti af 1700 hlaupurum sem hafa tekið þátt í 24 tíma hlaupi frá áramótum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert