Tónlistarmaðurinn Nick Cave datt af sviðinu á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties, ATP, í kvöld. Honum virðist ekki hafa orðið meint af því skömmu síðar birtist hann aftur á sviðinu og lauk tónleikunum sem fram fara á gamla varnarsvæðinu í Keflavík. Atvikið má sjá á meðfylgjandi myndskeiði.
Sjónarvottur segir að Cave hafi staðið á mjóum rampi út frá sviðinu er atvikið átti sér stað snemma á tónleikunum. Hann hafi svo snúið sér við og ætlað að fara til baka en datt þá fram af rampinum. „Hann bara hvarf allt í einu og míkrófónninn flaug upp í loftið,“ segir sjónarvottur í samtali við mbl.is.
Nokkur óvissa ríkti meðal áhorfenda um stund, ekki síst vegna þess að aðstoðarmenn Caves komu hlaupandi að og virtust í uppnámi.
Hljómsveitin hélt þó áfram að spila. „Allt í einu birtist hann svo aftur aftast á sviðinu og hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist,“ segir tónleikagestur.
Er Cave lauk laginu sagði hann að rampurinn væri „helvíti slæm hugmynd“ og að þar vantaði handrið.
„En svo kláraði hann alla tónleikana eins og algjör hetja,“ segir tónleikagesturinn.