„Hugmyndin um að láta Jón gefa okkur saman kviknaði vegna þess að ég var tæknimaður hjá Tvíhöfða á sínum tíma,“ segir Hans Steinar Bjarnason, íþróttafréttamaður á RÚV.
Hann og eiginkona hans, Sigríður Þóra Þórðardóttir, komu gestum í fertugsafmæli Hans Steinars verulega á óvart í gærkvöldi þegar Jón Gnarr borgarstjóri gaf þau saman.
„Ég vann með þeim um fimm ára skeið og það varð að reglulegum lið í þættinum hjá þeim að leita að konu handa tæknimanninum, þeim fannst hann eitthvað svo einmana. Nú hef ég verið með konunni minni í níu ár og okkur datt í hug að þeir gæfu okkur bara saman.“
Spurður um löggildi hjónavígslunnar svarar Hans Steinar því til að lagalega hliðin skipti þau engu máli.
„Við létum kanna hjónavígsluskilyrði hjá sýslumanni og spurðum hann hvort þetta mætti. Löglega séð má ekki gefa borgarstjóra umboð til að gefa hjón saman.“
Hans Steinar og Sigríður Þóra létu því gefa sig formlega saman á skrifstofu sýslumanns. „Lög og reglugerðir skipta okkur engu máli. Það er bara athöfnin sem skipti okkur máli og það hlýtur að vera undir okkur komið hvernig við framkvæmum hana. Athöfnin snerist um skemmtun en hitt er bara formsatriði.“
Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 segir í 18.gr. að „borgaralega hjónavígslu framkvæma sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.“
Frétt mbl.is: Jón Gnarr gaf saman brúðhjónin