Hallur undirbýr málsókn gegn nefndinni

Hallur Magnússon
Hallur Magnússon

Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri Þróunarsviðs Íbúðalánasjóðs, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann sé að undirbúa málsókn gegn rannsóknarnefndinni sem vann ítarlega skýrslu um Íbúðalánasjóð.

Hallur segir að skýrslan sé „yfirfull af rangfærslum“. Hallur tók, meðan hann starfaði hjá Íbúðalánasjóði, þátt í að undirbúa breytingar á reglum sjóðsins árið 2004 sem m.a. fólu í sér 90% lán.

„Við undirbúning að 90% lánum Íbúðalánssjóðs og breytingar á skuldabréfaútgáfu sjóðsins árið 2004 var haft náið samstarf og samráð við Eftirlitsstofnun EFTA, öflugt sérfræðingateymi Deutsche Bank og fulltrúa alþjóðlegra matsfyrirtækja.

Það vekur athygli að í skýrslu þremenninganna, sem kostað hafa skattborgara hundruð milljóna, var ekki rætt við einn einasta fulltrúa framangreindra aðila.

Það eitt rýrir verulega gildi skýrslunnar sem því miður er yfirfull af rangfærslum.

Alvarleg rangfærsla snýr að mér persónulega þar sem haldið er fram að ráðning mín til Íbúðalánasjóðs hafi verið pólitísk og gefið í skyn að mitt starf hjá sjóðnum hafi ekki verið auglýst.

Einn þremenninganna hnykkti á þessum alvarlegu ávirðingum á blaðamannafundi.

Staðreynd málsins er að sú yfirmannsstaða sem ég var ráðinn í til Íbúðalánasjóðs sumarið 1999 var auglýst í fjölmiðlum. Gallup sá um ráðningarferlið og mat mig hæfastan umsækjenda úr stórum hóp umsækjenda. Tveir aðrir voru einnig metnir hæfir.

Þær stöður sem ég gegndi hjá Íbúðalánasjóði eftir það voru á sambærilegu stjórnunarstigi og voru tilkomnar vegna skipulagsbreytinga. Verkefni þau sem ég var ráðinn til árið 1999 voru ætíð hluti stjórnandastarfs míns.

Í ljósi þessara alvarlegu ásakana nefndarinnar og þá sérstakalega eins fulltrúa hennar sem mér skilst að hafi lagt sig eftir því að koma framangreindum rangfærslum á framfæri á blaðamannafundi þá hef ég hafið undirbúning að meiðyrðamáli gagnvart nefndinni í heild og viðkomandi nefndarmanni sérstaklega.

Í ljósi bakgrunns míns þá taldi ég mig verða síðasta mann á Íslandi til að fara í meiðyrðamál. En rangfærslurnar eru það alvarlegar að ég á engan annan kost,“ segir í yfirlýsingu sem Hallur sendi fjölmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka