Skýrsla rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð verður afhent fyrsta varaforseta þingsins, Kristjáni Möller, í dag klukkan 13:00 en nefndin var skipuð í september 2011 á grundvelli þingsályktunar frá 17. desember 2010. Verkefni nefndarinnar var að rannsaka starfsemi sjóðsins frá aðdraganda þeirra breytingar sem gerðar voru á fjármögnun og lánareglum hans á árinu 2004 og til ársloka 2010. Skýrslan verður svo kynnt blaðamönnum á fundi kl. 14.
Ennfremur var nefndinni falið að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu Íbúðalánasjóðs sem og einstökum ákvörðunum á umræddu tímabili á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni. Þá var verkefni hennar að leggja mat á áhrif starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála í landinu og loks að meta hversu vel sjóðnum hafi tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á þeim tíma sem um ræðir.
Meðal þess sem féll innan verkefnisins var að skoða með ítarlegum hætti framgöngu banka á lánamarkaði til fasteignakaupa og viðbrögð Íbúðalánasjóðs við aukinni samkeppni frá þeim um íbúðalán. Meðal annars vegna 100% lána bankanna og uppgreiðslna á lánum sjóðsins. Þá til dæmis hækkað lánshlutfall úr 80% í 90% og hækkuð hámarkslán.
Sömuleiðis bar nefndinni meðal annars að taka til skoðunar viðbrögð Íbúðalánasjóðs við vaxandi þenslu á fasteignamarkaði, samskipti sjóðsins við Seðlabanka Íslands vegna lausafjár sjóðsins og eftirlit Alþingis, ráðuneytis og stofnana á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands með starfsemi sjóðsins og hvort það hafi verið fullnægjandi.
Fram kemur í þingsályktun Alþingis að í kjölfar rannsóknarinnar skuli fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.
Formaður rannsóknarnefndarinnar er Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari, og með honum í nefndinni eru Kristín Flygenring, hagfræðingur, og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.