Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að Píratar væru hættir málþófi. Ástæða þessa væri sú að forseti Íslands sé kominn til landsins.
Í yfirlýsingunni segir að þingmenn Pírata hafi, ásamt yfir 34.000 landsmönnum, skorað á forsetann að synja lögum um lækkun veiðigjalda staðfestingar og skjóta málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í yfirlýsingunni segir einnig að Píratar hafi fyrir helgi sent forseta Íslands opið bréf um að Píratar myndu þæfa mál um lækkun á veiðigjaldi þar til hann kæmi til landsins. Forsetaritari hafi hins vegar staðfest við Pírata að forsetinn sé kominn til landsins og að meginmarkmiðinu með málþófi Pírata sé því náð.
Þar segir ennfremur að Píratar hafi rætt um að koma með víðtækari kröfur og halda málþófinu áfram. Þeim þyki það hins vegar ekki góð regla og vilji frekar fylgja fordæmi ungs indversks lögfræðings í Suður-Afríku, sem fór forðum af stað með borgaralega óhlýðni sem varð að fjöldahreyfingu. Þegar hreyfingin var komin í stöðu til að ná fram kröfum sínum þá þótti lögfræðingnum Mohandas (síðar Mahatma) Gandhi ekki rétt að bæta við kröfurnar.
Píratar hafa í framhaldinu óskað eftir fundi með forsetanum til að ræða framgöngu beins lýðræðis á Íslandi og hvernig Píratar geti best unnið að brautargöngu þess, segir í yfirlýsingunni.
„Forsetinn er kominn til landsins. Málskotsrétturinn er nú í höndum forsetans. Málþófi Pírata er lokið,“ segir að lokum.
Undir yfirlýsinguna skrifa Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata