„Ég sem ljósmyndari er ekki að fara að horfa á aðra taka myndir,“ segir Eva Björk Ægisdóttir, ljósmyndari fyrir Morgunblaðið, en henni var í gær boðið að mæta á æfingu landsliðs kvenna í fótbolta sem fram fór á Laugardalsvelli í dag.
Í tilkynningu sem Knattspyrnusamband Íslands sendi fjölmiðlum í gær var æfingin sögð opin fjölmiðlamönnum og átti liðsmyndataka að fara fram laust fyrir klukkan tíu. Segir í tilkynningu um myndatökuna að hún „gæti verið áhugavert efni fyrir ljósmyndara eða myndatökumenn sjónvarps að fylgjast með“.
Þegar ljósmyndarar Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og Fótbolta.net mættu á völlinn til þess að taka myndir af landsliðinu kom hins vegar annað í ljós. Var ljósmyndurum m.a. bent á að þeir mættu ekki stíga inn á völlinn sjálfan, einungis landsliðið og einn „ljósmyndari“ á vegum KSÍ máttu vera inni á vellinum. Þurfti Eva Björk því að standa á hlaupabrautinni til hliðar við landsliðið og taka myndir þaðan.
„Við máttum heldur ekki biðja þær um að líta í áttina til okkar eða taka mynd beint á þær. Einnig er athugavert við þetta að það var enginn ljósmyndari á vegum KSÍ sem tók myndina, heldur var það Jói vallarvörður,“ segir Eva Björk og bætir við að KSÍ hafi síðan boðið ljósmyndurum að fá myndina sem vallarvörðurinn tók. „En ég sem ljósmyndari er ekkert að fara að nota mynd eftir einhvern annan.“