„Maður hugsar um líðandi stund, maður verður að taka þetta í mörgum smáum bitum,“ segir hlauparinn Gunnlaugur Júlíusson, en hann lagði af stað frá Streatley við Thames-ána í London. Hann tekur þátt í hlaupinu Thames Ring 2013 og hefur 100 klukkustundir til að ljúka 10 maraþonum. Næsta sólarhringinn vonast hann til að hlaupa 3 til 4 maraþon, eða meira en 126 kílómetra.
Hljóðið var gott í Gunnlaugi þegar blaðamaður mbl.is heyrði í honum í morgun. Þá hafði hann hlaupið í um tvær klukkustundir og lagt að baki rúmlega hálft maraþon. „Maður er að stilla sig inn, það er langt eftir,“ sagði hann.
Það verður lítið um svefn hjá hlauparanum næstu dagana en hann gerir ekki ráð fyrir að sofa neitt næsta sólarhringinn. Þegar hann leggst til svefns mun hann sofa undir berum himni. „Ég finn mér bekk til að halla mér á,“ segir Gunnlaugur og segir það lítið mál þar sem hlýtt er í veðri og þurrt.
Tæplega fjörutíu hlauparar lögðu af stað í morgun. Gunnlaugur hleypur með bakpoka þar sem hann geymir drykki og snarl. Eftir hvert maraþon, eða 42 kílómetra, er drykkjarstöð þar sem hlaupararnir nærast.
Gunnlaugur kveðst ekki hlusta á tónlist á hlaupunum, heldur hugsi hann mikið. „Þetta vinnst með seiglunni,“ segir hann og heldur ótrauður áfram.
Frétt mbl.is: Hleypur tíu maraþon á 100 klukkustundum