Gestkvæmt í Eyjum vegna gosloka

Svona var umhorfs í Heimaey á þriðja degi gossins.
Svona var umhorfs í Heimaey á þriðja degi gossins. Kristinn Benediktsson

„Það er allt klappað og klárt nema veðrið en við verðum bara að taka því sem að höndum ber,“ segir Kristín Jóhannsdóttir sem sæti á í goslokanefnd en 40 ára stórafmælishátíð goslokanna í Vestmannaeyjum er haldin dagana 4.-7. júlí.

Goslokahátíðin í Eyjum er tákn sögu sem á sér enga hliðstæðu í íslensku samfélagi og eiga aðstandendur hátíðarinnar von á því að goslokahátíðin í ár verði sú fjölmennasta til þessa. „Það eru allar ferðir meira og minna fullbókaðar, ekki bara fyrir bíla heldur einnig fyrir fólk. Hér streymir að fólk í plássið en þetta er eina útihátíðin á Íslandi þar sem meðalaldurinn er um eða yfir 50 ár,“ segir Kristín og bætir við að gömlu lögin verði því sungin alla helgina.  

Svalt og blautt um helgina

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir vætu alla helgina í Vestmannaeyjum. „Það verður strekkingur eða allhvasst á föstudaginn og grenjandi rigning. Á laugardag verður áfram blautt með suðvestanátt. Svo verður sennilega einhver væta á sunnudaginn líka,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, og bætir við að helgin verði í raun ansi blaut víða um land. „Það verður bara frekar svalt og blautt.“

Flytur kveðju frá fyrrverandi sendiherra

Heimaeyjargosið hófst þann 23. janúar 1973 og var því lýst lokið þann 3. júlí sama ár. Er þetta fyrsta eldgos sem hefst í byggð hér á landi og segir Kristín goslokahátíðina vera mikilvægan lið í að minnast þessa atburðar. Segir hún marga góða gesta koma til með að sækja Vestmannaeyjar heim og nefnir hún t.a.m. níu manna hóp frá Bandaríkjunum í því samhengi. En einn úr hópnum er kona að nafni Barbara Irving en hún er dóttir Fredericks Irvings, sendiherra Bandaríkjanna hér á landi á árunum 1972 til 1976.

„Hún ætlar að vera hérna á opnunarhátíðinni og lesa kveðju frá honum til okkar,“ segir Kristín og bendir á að fyrrverandi sendiherra hafi á sínum tíma haft milligöngu um að útvega öflugar dælur, sem að hluta komu frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, til þess að kæla niður hraun. „Svo við eigum honum ýmislegt að þakka.“

Von er á fleiri góðum gestum á hátíðina en að sögn Kristínar hafa Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, boðað komu sína. „Svo finnst okkur líka svo gaman að fá hingað fólk sem nú er orðið fullorðið, en var ungt og ferskt í gosinu að bjarga verðmætum. Þetta fólk streymir allt hingað á goslok.“

Listsýningar, tónlist og Húni II

Dagskrá goslokahátíðar er ekki af verri endanum enda um stórafmælishátíð að ræða í ár. Meðal þeirra sem flytja lög á hátíðinni er Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður en hann flytur goslokalagið, sem nefnist „Leiðin heim“, og segir Kristín lagið þegar hafa slegið í gegn í Eyjum. „Þetta er spilað út um allt.“

Þá hefur einnig norski söngvarinn Julius Winger boðað komu sína auk þess sem norski fréttamaðurinn Geir Helljesen verður sérstakur gestur í ár en hann flutti fréttir af gosinu fyrir norska ríkissjónvarpið á sínum tíma. Nánar má skoða dagskrá goslokahátíðarinnar hér

 Vert er að geta þess sérstaklega að fjölmargar listsýningar verða haldnar á hátíðinni. Á meðal þeirra sem sýna verk sín er listakonan Hulda Hákon sem mun halda sýningu á lágmyndum, höggmyndum og texta. „Hún sýnir alla helgina en svo verður hennar sýning opin fram í byrjun ágúst.“ Þá má einnig nefna að hljómsveitin Fjallabræður og Lúðrasveit Vestmannaeyja verða með tónleika í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja á föstudag.

Á sunnudag mun svo áhöfnin á Húna II. leika tónlist fyrir gesti en í áhöfninni eru tónlistarmennirnir Jónas Sig, Lára Rúnars, Ómar Guðjónsson, Guðni Finnsson, Arnar Gíslason og Mugison. „Þeir klára hátíðina með okkur.“

Mikið bókað með Herjólfi til Eyja

Hjá Herjólfi fengust þær upplýsingar að allar ferðir fyrir bíla væru fullar fram á laugardag. Á föstudag eru allar ferðir Herjólfs, fyrir bæði bíla og farþega, fullar nema síðasta ferðin klukkan 10. Þar er enn laust fyrir nokkra farþega. Fyrsta ferð Herjólfs til Eyja á laugardag er einnig fullbókuð.

Forsíða Morgunblaðsins 23. janúar 1973
Forsíða Morgunblaðsins 23. janúar 1973 mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert