Gömul og ný kosningaloforð gagnrýnd

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmönnum stjórnarandstöðunnar varð tíðrætt um það á Alþingi í dag slæm staða Íbúðalánasjóðs, eins og henni er lýst í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um málefni sjóðsins sem birt var í gær, væri fyrst og fremst á ábyrgð Framsóknarflokksins vegna kosningaloforða hans um 90% íbúðalán fyrir þingkosningarnar 2003 og pólítskrar aðkomu framsóknarmanna að honum síðan.

Einkum voru það þingmenn Samfylkingarinnar sem lögðu áherslu á aðkomu Framsóknarflokksins að Íbúðalánasjóði, þar á meðal Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar. Sigríður sagði að stærstu mistökin hefðu verið pólitísk einstefna í málaflokknum. Meira máli hafi skipt að efna vanhugsuð kosningaloforð en hlusta á varnaðarorð í þeim efnum.

Rifjaði upp stuðning Samfylkingarinnar við 90% lán

Karl Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, vitnaði hins vegar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar þess efnis að 90% lánin hafi komið í kjölfar þess að viðskiptabankarnir hefðu farið að veita mun hærri lán en Íbúðalánasjóður. Það væri því spurning hvort hefði komið á undan eggið eða hænan.

Karl rifjaði einnig upp mikinn stuðning úr röðum Samfylkingarinnar við 90% íbúðalán á sínum tíma og að þingmenn flokksins hefðu jafnvel viljað koma þeim á áður en álit erlendra eftirlitsstofnana lægju fyrir. Þar á meðal hefðu verið bæði Helgi og Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar. Þá spurði hann hvers vegna ekki hefði verið tekið á málum Íbúðalánasjóðs á árunum 2007-2013 á meðan Samfylkingin hefði farið með málefni hans í ríkisstjórn.

Framkvæmd 90% lánanna vandamálið

Helgi svaraði því til að vandamálið hefði ekki verið 90% lán sem slík enda hefði verið boðið upp á slík lán í nágrannaríkjum Íslands án vandamála. Hins vegar snerist málið um það með hvaða hætti kosningaloforð Framsóknarflokksins hefði verið útfært. Þá gerðu hann og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn að umtalsefni kosningaloforð framsóknarmanna fyrir síðustu þingkosningar og hann sagði brýnt að sjá til þess að þau yllu ekki þjóðfélaginu að sama skapi gríðarlegu tjóni þegar upp væri staðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert