Milljarðatap vegna vanhæfis

Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð kynnti niðurstöður skýrslu sinnar á blaðamannafundi …
Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð kynnti niðurstöður skýrslu sinnar á blaðamannafundi í gær. Nefndina skipa þau Sigurður Hallur Stefánsson, Jón Þorvaldur Heiðarsson og Kirstín Þ. Flygenring. mbl.is/Styrmir Kári

Veruleg vanhæfni stjórnenda Íbúðalánasjóðs (ÍLS) og ótrúlegt sinnuleysi af hálfu eftirlits- og valdastofnana þjóðfélagsins varðandi gríðarleg hagsmunamál almennings eru efst í huga fulltrúa rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn að rannsókninni lokinni. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem kynnt var í gær.

Íbúðalánasjóður hefur tapað 270 milljörðum króna frá stofnun árið 1999, þar af 86 milljörðum vegna útlána, samkvæmt rannsókn nefndarinnar. Tveir þriðju hlutar útlánatapsins, vel á sjötta tug milljarða króna, voru vegna lána sem veitt voru á árunum 2005 til 2008, í kjölfar breytinga á útlánum og fjármögnun þeirra. Þar á meðal var sú breyting að hækka veðhlutfall lána sjóðsins í 90% og hækka lánaupphæðir.

Rannsóknarnefndin segir að enn sjái ekki fyrir endann á þeim kostnaði sem falli á almenning vegna mistaka sem varða sjóðinn. Hún gagnrýnir vanþekkingu innan sjóðsins og félagsmálaráðuneytisins. Þá hafi pólitísk áhrif og hagsmunatengsl ekki bætt úr skák.

Uppgreiðsluáhættan aukin

Það var hinn 1. júlí árið 2004 sem nýtt íbúðabréfakerfi með beinum peningalánum var tekið upp í stað húsbréfakerfis Íbúðalánasjóðs. Þá var hámarkslánsfjárhæð sem sjóðnum var heimilt að lána hækkuð verulega og veðhlutfall almennra lána hækkað úr 65% í 90%. Það megi rekja til kosningaloforða Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2003.

Í skýrslunni segir að ekki sé hægt að túlka breytingarnar á sjóðnum öðruvísi en sem markaðssókn, þrátt fyrir að ekki mætti sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir voru einkavæddir. Ríkisábyrgð var notuð til þess að laða að m.a. erlent áhættufé til þess að lækka vexti. Uppgreiðsluáhætta sjóðsins var stóraukin og var þar farið gegn ráðleggingum sérfræðinga.

Afdrifaríkustu mistökin

Skuldabréfaskipti sem fóru fram í kjölfar breytinganna þar sem eigendum gömlu húsbréfanna var boðið að skipta yfir í nýju íbúðabréfin eru að mati rannsóknarnefndarinnar ein verstu og afdrifaríkustu mistökin sem Íbúðalánasjóður hefur gert. Hann tapaði að lágmarki 21 milljarði króna að núvirði vegna þeirra. Þar fyrir utan tapaði hann 3,5 milljörðum að núvirði vegna reiknivillu sem gerð var í skiptunum.

Eftir að einkabankarnir hófu að bjóða húsnæðislán á lægri vöxtum í ágúst 2004 hófust miklar uppgreiðslur á lánum Íbúðalánasjóðs. Frá september 2004 til apríl 2006 hafi uppgreiðslur umfram útlán til að mynda numið 112 milljörðum króna. Engu að síður sótti sjóðurinn sér meira fé með sölu íbúðabréfa.

Til að ávaxta þetta mikla umframfé ákvað sjóðurinn að lána bönkum og sparisjóðum tæplega 100 milljarða króna frá desember 2004 til desember 2005. Það leiddi til frekari getu þeirra til að veita húsnæðislán sem aftur jók uppgreiðslur á lánum ÍLS auk þess að bæta enn á þenslu í samfélaginu. Þá segir í skýrslunni að allt bendi til þess að lánasamningarnir við fjármálastofnanirnar hafi verið ólöglegir.

Slakaði á kröfum

Íbúðalánasjóður tapaði miklum fjármunum við efnahagshrunið árið 2008 vegna þess að starfsmenn hans höfðu fært lausafé hans í auknum mæli í áhættusamari fjárfestingar.

Rannsóknarnefndin segir að stjórn og stjórnendur ÍLS hafi talið að eftirlit hans með útlánaáhættu takmarkaðist við reglur um lánshlutföll og hámarkslán og honum væri skylt að lána öllum sem uppfylltu þau skilyrði. Sjóðurinn hafi slakað á lánaskilyrðum vegna samkeppni frá öðrum lánastofnunum síðsumars 2004 og þannig aukið útlánaáhættu sína. Þannig hafi verið gerðar minni kröfur í greiðslumati á sama tíma og veðhlutfallið var hækkað upp í 90% af kaupverði. Stór hluti lánanna hafi að auki verið veittur þegar húsnæðisverð var sem hæst. Því voru meiri líkur á að þessi lán lentu í vanskilum en önnur eins og raunin varð við lækkun fasteignaverðs í byrjun árs 2008 og hrunið.

Gagnrýna pólitískar ráðningar

Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er að eftirlit með ÍLS og áhættustýring hafi verið ófullnægjandi. Starfsmenn sjóðsins skorti þekkingu til að nýta eftirlitskerfi og áhættustýringaraðferðir sem komið var á fót. Þeir hafi túlkað niðurstöður ranglega og reiknað rangt. Þessu hafi Fjármálaeftirlitið ekki tekið eftir eða að minnsta kosti ekki gert athugasemd við.

Ríkisendurskoðun skrifaði skýrslur um ÍLS árin 2005-2006 en rannsóknarnefndin segir að stofnunin hafi verið vanhæf til þess vegna þess að hún sá um innra eftirlit sjóðsins.

Nefndin gagnrýnir einnig eftirlitsleysi af hálfu Alþingis og pólitískar ráðningar í stöður framkvæmdastjóra sjóðsins, forstjóra FME og bankastjóra Seðlabanka Íslands. Hún segir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samábyrga fyrir breytingunum sem gerðar voru 2004 en pólitískur ágreiningur þeirra á milli um þær hafi veikt umgjörð og festu innleiðingar þeirra og veikt eftirlit með Íbúðalánasjóði.

Ekki með hagsmuni sjóðsins í huga

Útboð á innheimtu og tengdri þjónustu fyrir Íbúðalánasjóð sem fór fram árið 1999 er gagnrýnt í skýrslunni og sagt illa ígrundað. Boðin voru út aðskilin verkefni sem kröfðust ólíkrar þekkingar, þarfir ÍLS voru ekki nægilega vel skilgreindar og starfsfólk hans hafði litla sem enga aðkoma að gerð þeirra.

Lægstbjóðandi, Fjárvaki, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, gat ekki staðið við gerða samninga og var samningum rift árið 2002. Fyrirtækinu var þá greidd fjárhæð sem var sambærileg þeirri sem það hefði fengið hefði það staðið við gerða samninga.

Sama dag var skrifað undir tvo samninga við Sparisjóð Hólahrepps, samstarfsaðila Fjárvaka. Þetta segir rannsóknarnefndin að hafi verið óeðlilegt þar sem þjónustan hefði átt að fara í útboð. Þá hafi samningur um vistun 300 milljóna króna öryggissjóðs ÍLS hjá sparisjóðnum verið óforsvaranlegur út frá sjónarmiðum um lausafjárstýringar og hann hafi ekki verið gerður með hagsmuni ÍLS í huga.

Skýrslan nytsamleg fyrir húsnæðismál

Guðmundur Bjarnason gegndi starfi framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs í rétt rúman áratug eða frá 1999 til 2010. „Mér sýnist að í skýrslunni sé að finna ýmislegt nytsamlegt fyrir framtíðaruppbyggingu húsnæðismála, sem er einmitt mikið í deiglunni þessa dagana. Skýrslan mun eflaust nýtast vel í það,“ sagði Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, í gær en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um innihald skýrslunnar. Guðmundur segist hafa verið kallaður í skýrslutöku nokkrum sinnum en hafi ekki fengið andmælarétt við skýrslunni enda séu niðurstöðurnar ekki þess eðlis að þörf hafi verið á því. „Það er ekki um að ræða neinar ákærur eða neitt ólögmætt, þannig að það var ekki þörf á því.“

Fyrrverandi sviðsstjóri hyggst höfða meiðyrðamál gegn nefnd

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunarsviðs Íbúðalánasjóðs, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann hyggist höfða meiðyrðamál gegn rannsóknarnefndinni. Hann segir skýrsluna fulla af rangfærslum. Þá gagnrýnir hann einna helst að því sé haldið fram að ráðning hans til Íbúðalánasjóðs hafi verið pólitísk og gefið í skyn að starf hans hjá sjóðnum hafi ekki verið auglýst. Í yfirlýsingu hans segir meðal annars: „Í ljósi þessara alvarlegu ásakana nefndarinnar og þá sérstaklega eins fulltrúa hennar sem mér skilst að hafi lagt sig eftir því að koma framangreindum rangfærslum á framfæri á blaðamannafundi þá hef ég hafið undirbúning að meiðyrðamáli gagnvart nefndinni í heild og viðkomandi nefndarmanni sérstaklega.“

Varaði við hættunni

Grétar Júníus Guðmundsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, benti á það í desember 2004 að sjóðurinn væri í miklum vanda vegna þeirra breytinga sem hefðu orðið á fasteignalánamarkaði og hann gæti stefnt í þrot. „Líkurnar á því aukast með auknum uppgreiðslum á útlánum sjóðsins og einnig ef vextir á markaði haldast eins og þeir eru nú eða ef þeir lækka. Ástæðan fyrir þessu er einkum sú hvernig staðið var að skuldabréfaskiptum í tengslum við breytinguna úr húsbréfakerfinu yfir í hið nýja peningalánakerfi sjóðsins, sem tók gildi hinn 1. júlí síðastliðinn. Möguleikinn á því að þessi staða komi upp hefði ekki komið til ef ekki hefði verið ráðist í þau miklu skuldabréfaskipti sem ákveðin voru samfara lánakerfisbreytingunni með þeim hætti sem gert var,“ skrifaði Grétar í fréttaskýringu.

Skrif Grétars vöktu hörð viðbrögð hjá Halli sem sagði niðurstöður hans rangar. „Við gerum ráð fyrir verulegum uppgreiðslum og í því skyni héldum við eftir á annað hundrað milljarða í húsbréfum til þess að geta dregið út á móti uppgreiðslum,“ sagði Hallur við RÚV daginn sem fréttin birtist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert