Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom upp í pontu á Alþingi í dag og sagðist telja sig knúna til að fræða þingmenn örlítið um gallabuxur og verja heiður þeirra. Hún sagðist vilja passa upp á þingmenn gerðust ekki forpokaðir á Alþingi.
Elínu var á þriðjudag gert að skipta um buxur en þá mætti hún til vinnu á Alþingi í bláum gallabuxum. Hún vísaði í grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun um gallabuxur en þar segir: „Þrátt fyrir að öll helstu tískuhús heims hanni og framleiði gallabuxur í dag í ýmsum sniðum virðast þær þó alltaf settar skör lægra en aðrar buxur í virðingarstiganum. Þær þykja ekki nógu fínar, eru ekki spari, jafnvel órifnar og stífstraujaðar. Kannski er það vegna þess að gallabuxur hafa löngum verið tákn verkamanna, kúreka og hafnarverkamanna, vinnubuxur í verksmiðju.“
Að endingu sagðist Elín vilja vekja athygli á misrétti sem viðgengist á Alþingi; svartar, rauðar, grænar og drapplitaðar gallabuxur séu leyfðar en ekki bláar.