Fundarboð varð að fýluferð

„Dagskráin riðlaðist mjög hratt vegna þingflokksfunda og kvöldverðarhlé var gert með nánast engum fyrirvara,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is spurð að því hvers vegna ekkert hafi orðið af fyrirhuguðum fundi með þremur fulltrúum Stúdentaráðs.

En til stóð að ræða fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í dag og voru fulltrúarnir kallaðir á fundinn með skömmum fyrirvara.

Unni Brá þykir miður að ekki hafi orðið af fundinum og segist ekki hafa vitað af fulltrúum Stúdentaráðs í Alþingi en þeir biðu í Alþingishúsinu í um hálftíma áður en þeir voru sendir aftur heim. „Okkur þykir þetta afskaplega leiðinlegt en stundum gerast hlutirnir bara hratt hér í þinginu og erfitt að bregðast við,“ segir Unnur Brá. Málefni sjóðsins verða tekin til skoðunar í ágúst.

Fulltrúar Stúdentaráðs segja mikla vinnu hafa farið í að undirbúa fundinn auk þess sem einn fulltrúi hafi breytt ferðaáætlunum sínum og annar tók sér frí frá vinnu til þess að geta mætt til fundar við nefndina. „Við biðum í hálftíma þar til okkur var sagt að ekkert yrði af fundinum,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir sem sæti á í Stúdentaráði. Því næst voru þau send heim án skýringar. „Þetta eru náttúrlega fáránleg vinnubrögð.“

Stjórnarfundur LÍN verður haldinn næstkomandi þriðjudag og verða teknar fyrir breytingartillögur á úthlutunarreglum sem samþykktar voru 24. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert