Strokufangi dæmdur fyrir árás

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson

Matthías Máni Erlingsson sem vann sér það til frægðar að strjúka af Litla-Hrauni í desember og gefa sig fram að morgni aðfangadags jóla eftir viku á flótta var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að ráðast á fangavörð.

Árásin tengdist strokinu ekki á nokkurn hátt en Matthías sló fangavörð í höfuðið 5. mars síðastliðinn. Hann játaði sök en lét bóka að brotið teldist smávægilegt enda lægi ekki fyrir áverkavottorð í málinu.

Dómari féllst á þessa röksemd Matthíasar Mána en hins vegar horfði það til refsiþyngingar að Matthías var að afplána refsingu og brotið beindist gegn opinberum starfsmanni sem hefur heimild til valdbeitingar.

Tekið er sérstaklega fram að ekki séu efni til að líta sérstaklega til þess að Matthías Máni hafi sætt agaviðurlögum í fangelsinu vegna stroksins, þar sem þar er ekki um að ræða refsinu samkvæmt skilgreiningu laga.

Matthías afplánar fimm ára dóm frá síðasta ári fyrir tilraun til manndráps en hann var áður dæmdur í þriggja ára fangelsi í Austurríki árið 2007 fyrir líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert