Þreifar sig áfram með vasaljósi

Gunnlaugur Júlíusson, langhlaupari.
Gunnlaugur Júlíusson, langhlaupari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er kominn vel á fjórða maraþon,“ segir hlauparinn Gunnlaugur Júlíusson í samtali við mbl.is í morgun, en hann hóf Thames Ring 2013 hlaupið í gærmorgun og hefur 100 klukkustundir til að ljúka 10 maraþonum. Nú hefur hann hlaupið í rúman sólarhring og heldur Gunnlaugur ótrauður áfram. 

Hljóp í myrkri í nótt

Hlaupið sóttist heldur hægt í nótt, enda niðamyrkur á svæðinu. „Það lá við að maður þyrfti að þreifa sig áfram með vasaljósi,“ sagði Gunnlaugur. Það tók sinn tíma en nú er farið að birta til og hlýna. 

Hlauparinn hefur ekki sofið enn. „Það verður að bíða, ég sé til eftir næstu nótt,“ segir hann. Tæplega fjörutíu hlauparar lögðu af stað í gærmorgun en Gunnlaugur hleypur einn. Hann segir hópinn hafa dreifst mikið og hver fari á sínum hraða. Hlaupið fer meira og minna fram á skógarstígum og stígum við bakka Thames-árinnar. „Ég hef meðal annars hlaupið framhjá Windsor-kastalanum og Paddington-lestarstöðinni.“

Pakkasúpa og sælgæti

Eftir hvert maraþon er drykkjarstöð þar sem þátttakendurnir nærast. Áður en hlaupið hófst fékk Gunnlaugur upplýsingar um að það ætti að vera heit máltíð á annarri drykkjarstöðinni. Hann kveðst hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum þegar þangað var komið. 

„Í ljós kom að máltíðin stóð saman af pakkasúpu og smápylsum,“ segir Gunnlaugur. Einnig var boðið upp á kex og sælgæti til að fylla upp í. „Það er ekki alveg minn pakki.“ Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að nærast vel þegar svo mikið álag er lagt á líkamann og sér því fram á að koma við á veitingahúsi eða í stórmarkaði. 

„Ég var frekar fúll og sagði þeim að ég hefði ekki vitað að maður ætti að koma með allan matinn heiman frá sér,“ segir Gunnlaugur. „Menn lifa ekki tíu maraþon á einhverju drasli.“

Gunnlaugur heldur ótrauður áfram og segist vera bjartsýnn með framhaldið. Von er á góðu veðri í dag. 

Tekst á við hinar ýmsu áskoranir

Gunnlaugur verður 61 árs á þessu ári. Hann er fastagestur í hinum ýmsu keppnishlaupum hér á landi og hefur tekist á við fjölmargar áskoranir í hlaupaskónum.

Hann setti meðal annars Norðurlandamet árið 2010 í 24 stunda hlaupi þegar hann hljóp rúma 208 kílómetra á hlaupabretti í World Class í Kringlunni. Þá hefur hann einnig ferðast um heiminn og tekið þátt í erlendum hlaupum. 

Frétt mbl.is: „Finn mér bekk til að halla mér á“

Frétt mbl.is: Hleypur tíu maraþon á hundrað klukkustundum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert