„Það gekk vel í nótt og líkaminn er í góðu standi,“ segir Gunnlaugur Júlíusson hlaupari sem reiknar með að ljúka að hlaupa 400 km hlaupi síðar í dag. Hann hefur þá hlaupið samfleytt í 80 klukkustundir.
Gunnlaugur tekur þátt í hlaupinu Thames Ring 2013 og hefur 100 klukkustundir til að ljúka 10 maraþonum. Hann er núna búinn að vaka í þrjá sólarhringa og er búinn að hlaupa 380 km. Það er svipuð vegalengd og frá Reykjavík til Akureyrar.
„Það er heitt og maður er þreyttur og þá fer ég ekki eins hratt yfir,“ segir Gunnlaugur þegar hann er spurður hvernig hafi gengið í morgun. Gunnlaugur segist vera mjög ánægður ef honum takist að ljúka hlaupinu á innan við 80 klukkutímum.
Gunnlaugur segir að það reyni merkilega lítið á sig að sofa ekki í þrjá sólarhringa. „Það hefur afskaplega gott veður á nóttunni og tími hefur liðið hratt. Það er erfiðara að hlaupa yfir daginn þegar er orðið heitt. Það er best að hlaupa í morgunsvalanum á milli kl. 5-7. Núna er 25-28 stiga hiti.“
Gunnlaugur segist ekki telja að hann eigi eftir að sofa óvenju lengi í nótt. „Nei, maður sefur bara í nótt og þá verð ég búinn að ná jafnvægi,“ segir Gunnlaugur sem varð sextugur á síðasta ári.