Hallur vill afsökunarbeiðni

Sigurður Hallur Stefánsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, fyrir miðju …
Sigurður Hallur Stefánsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, fyrir miðju með skýrslu nefndarinnar. mbl.is/Golli

Lögmaður Halls Magnússonar, fyrrverandi sviðstjóra hjá Íbúðalánasjóði, hefur sent Sigurði Halli Stefánssyni, formanni rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn, bréf þar sem farið er fram á afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar um Hall í skýrslu nefndarinnar sem sé „bæði ósönn og meiðandi.“

Vísað er í þau ummæli í skýrslunni að ekki verði séð að staða yfirmanns græða- og markaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, sem Hallur var ráðinn í árið 1999, hafi verið auglýst. Ummælin eru þessi: „Einnig vekur athygli að Hallur Magnússon, sem á þeim tíma hafði lengi verið starfandi í Framsóknarflokknum, var ráðinn til stofnunarinnar, fyrst sem yfirmaður gæða- og markaðsmála en síðar sem yfirmaður þróunar- og almannatengslasviðs og að lokum sem sviðsstjóri þróunarsviðs. Ekki fæst séð að umrædd staða hafi verið auglýst er Hallur var fyrst ráðinn árið 1999.“

Þessu er mótmælt í bréfinu en í því er birt ítarleg ferilskrá Halls auk auglýsingar á starfinu sem birst hafi í Morgunblaðinu árið 1999. Hann farið í gegnum ráðningarferli hjá Gallup og verið metinn hæfastur umsækjenda. Ennfremur er tekið fram að Hallur hafi mætt á fund rannsóknarnefndarinnar og upplýst hana um ráðningarferlið. Nefndin hafi gegn betri vitund kosið að halda fram „algerum rangfærslum“ sem séu til þess fallnar „að kasta rýrð á starfsferil og æru“ Halls. Hægt hefði verið að girða fyrir það hefði honum verið gefinn kostur á andmælum.

„Þess er hér með farið á leit við virðulega rannsóknarnefndina að hún leiðrétti þessa rangfærslu hið snarasta með tilkynningu til fjölmiðla auk þess að biðja umbj. [minn] afsökunar á þessum meiðandi rangfærslum, svo ekki þurfi að koma til frekari eftirmála,“ segir að lokum í bréfinu sem undirritað er af Sveini Andra Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni, fyrir hönd Halls.

Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðstjóri hjá Íbúðalánasjóði.
Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðstjóri hjá Íbúðalánasjóði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka