„Þetta er framar okkar björtustu vonum og hlýtur að vera Íslandsmet. Ég man alla vega ekki eftir íslenskri auglýsingu sem hefur fengið viðlíka áhorf á netinu,“ segir Sveinn Tryggvason en hann kom að gerð auglýsingar Samsung á Íslandi sem vakið hefur mikla athygli víða heim.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hefur auglýsingin hlotið mikla athygli vestanhafs undanfarna daga. En það er ekki aðeins í Bandaríkjunum því vefmiðlar frá Úrúgvæ, Sádi-Arabíu og Rússlandi eru meðal þeirra sem sagt hafa frá auglýsingunni. Hún hefur verið skoðuð 620 þúsund sinnum á Youtube frá 1. júlí síðastliðnum.
„Það var meiningin að gera auglýsinguna þannig að efni hennar myndi vekja eftirtekt og að hún gæti farið í víðtæka dreifingu á netinu. Til þess er ekki nóg að segja bara frá einhverju sniðugu, það þarf að vera eitthvað sérstakt. Mér finnst of lítið af sauðkindum í markaðssetningu almennt og þær henta vel í graut með eplum og ninjum. Það er grautur sem skapar eftirtekt og ringulreið,“ segir Sveinn.
Sveinn segir efni auglýsingarinnar þó að mestu fara ofan garðs og neðan hjá útlendingunum. „Við erum náttúrlega fyrst og fremst að vekja athygli á þessum eiginleika símans, það er að viðmótið er ekki aðeins á íslensku heldur skilur síminn íslensku. Þetta er eiginleiki sem flestir Íslendingar kannast ekki við og fyrir okkur sem litla þjóð á litlu málsvæði er óhemju mikilvægt að máltæknin sé komin þetta langt,“ segir Sveinn og tekur sem dæmi að Danir hafi ekki val um þennan eiginleika.