Ríkissaksóknari skoðar handtöku

Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.
Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.

Myndband af lögreglumanni handtaka konu í miðborg Reykjavíkur hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum síðan það var birt í gær. Þykir mörgum sem lögreglumaðurinn hafi beitt konuna harðræði og hefur lögreglustjóri af því tilefni ákveðið að vísa málinu til ríkissaksóknara til skoðunar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu í dag vegna atviksins. Þar segir: „Eftir skoðun á myndbandinu hefur verið ákveðið að vísa málinu til ríkissaksóknara til rannsóknar, en samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer ríkissaksóknari með rannsókn mála vegna ætlaðra brota lögreglumana við framkvæmd starfa þeirra. ríkislögreglustjóri hefur einnig verið upplýstur um málið.“

Einnig tjáði lögreglan sig um málið á samfélagsvefnum Facebook. Þar segir: „Margir lýsa undrun og hneykslan vegna aðfara lögreglumannanna. Við sem höldum utan um þessa síðu getum ekki svarað fyrir þetta mál. Hins vegar mun það verða tekið til skoðunar innan embættisins. Að auki er fólki alltaf frjálst að leita réttar síns ef það telur lögregluna hafa brotið gegn sér.“

Þá segir að ekki sé hægt að ráða af myndskeiðinu hvaða samskipti áttu sér stað milli lögreglumannanna og konunnar sem varð til þess að hún var handtekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert