„Ég held að það sé ekkert út úr myndinni þannig lagað, en án þess að ég vilji tala fyrir hann persónulega þá held ég að þessi snautlega ákvörðun þingsins á dögunum hafi kannski ekki aukið honum bjartsýni,“ segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, aðspurður hvort uppljóstrarinn Edward Snowden hafi strikað Ísland út af listanum um möguleg hæli.
Snowden hefur alls sótt um hæli í 27 löndum og var Ísland með þeim fyrstu. Í síðustu viku lögðu sex þingmenn fram frumvarp á Alþingi til laga um að honum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur, en meirihluti þingmann felldi tillöguna um að mál hans yrði sent til umfjöllunar hjá þingnefnd.
Áður en það var gert sendi Snowden Alþingi bréf þar sem hann þakkaði kærlega fyrir að umsókn hans skyldi tekin til athugunar og sagðist finna styrk í stuðningi Íslendinga, „sem ég veit að eiga sér langa sögu í að standa keikir, jafnvel undir hótunum, þegar grunnréttindi eru í húfi“.
„Þessi afstaða manna hér og afgreiðsla hefur verið birt víða og er honum náttúrulega ljós. Ég tjái mig ekki um það sem gengur á í huga Snowdens, en þetta er vissulega skýr piltur sem dregur ályktanir af þeim upplýsingum sem honum berast,“ segir Kristinn aðspurður um viðbrögð Snowdens við örlögum máls hans á Íslandi.
Óljós staða þrátt fyrir jákvæð svör
Undanfarnar þrjár vikur hefur Snowden setið fastur án vegabréfs á Sjeremetjevo-flugvelli í Moskvu. Hann hefur þó fengið grænt ljós um hæli í Venesúela og yfirvöld á Kúbu segjast munu styðja við för hans þangað, en Kúba er algengasti hlekkur flugferða frá Rússlandi til Suður-Ameríku. Níkaragva og Bólivía eru einnig jákvæð gagnvart Snowden.
Kristinn segir að þrátt fyrir þetta sé staðan óljós eins og er og ekki vitað hvort, hvenær og hvernig hann komist frá Moskvu.
„En það liggur fyrir að afstaða almennings, eins og hún hefur birst í könnunum víða um heim, er afar jákvæð í hans garð og það fer ekki frma hjá honum. Þrátt fyrir lufsulega afstöðu stjórnvalda þá virðist nú almenningur, merkilegt nokk, vera býsna þakklátur fyrir að vita sannleikann um þessar yfirgripsmiklu persónunjósnir sem eru í gangi.“
Athyglin dregin frá stóra málinu
Upplýsingarnar sem Snowden lak leiddu m.a. í ljós að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur fengið heimild til að fylgjast með síma- og netnotkun milljóna manna. Undanfarnar vikur hefur athyglin hins vegar mest öll beinst að Snowden sjálfum, persónulegum högum hans og örlögum, en sjálf uppljóstrunin fallið nokkuð í skuggann.
„Menn geta svo sem velt því fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að draga athygli frá aðalmálinu, sem er að sjálfsögðu þessar risafréttir sem hafa verið að skekja heimsbyggðina,“ segir Kristinn. „Það er sorglegt dæmi um hvernig fjölmiðlun er fyrir komið ef það er orðið aðalmálið einhverjar hliðarfréttir sem snúa að hans forsögu.“
Almenningi gróflega misboðið
Kristinn segir Wikileaks áfram munu styðja ötullega við bakið á Snowden. „Við finnum fyrir gríðarlegri undiröldu meðal almennings, ekki síst í hinum vestræna heimi þar sem fólki er gróflega misboðið. Meðal annars í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, þar sem fólki er mjög annt um sína persónuvernd og drjúgur hluti þjóðarinnar þekkir á eigin skinni árásir á persónuvernd sem viðgengust á tímum Stasi.“
Hann bendir á viðtöl þýskra fjölmiðla við fyrrverandi meðlimi Stasi um uppljóstrun Snowdens. „Þeir hafa látið hafa eftir sér að umfang þessarar gagnaöflunar sem nú er uppi um allan heim fari langt fram úr villtustu draumum sem meðlimir þeirrar leyniþjónustu gátu hugsað sér á árum áður.“