Ólafur Ragnar Grímsson svaraði spurningum fréttamanna eftir að hann tilkynnti um ákvörðun sína að staðfesta lög um breytingar á veiðigjaldi. Hann sagði að málskotsrétturinn væri ekki sjálfsali sem virkjaðist við tiltekinn fjölda undirskrifta.
Hann sagði að lengd þriðju umræðu á Alþingi góða vísbendingu um hvort ósætti væri um mál, en í báðum þeim tilvikum sem hann hafi vísað málum í dóm þjóðarinnar hafi þriðja umræða staðið dögum saman; nú hafi hún aðeins staðið yfir í dagpart.
Hann vísaði því á bug að hann væri með þessu ósamkvæmur sjálfum sér, en forsetinn hefur í tvígang hafnað því að skrifa undir lög. Í fyrra skiptið neitaði hann að staðfesta lög um fjölmiðla og í seinna skiptið um Icesave-samningana. Forsetinn sagði að þau mál hafi snúist annars vegar um grundvallarþátt lýðræðisríkja, fjölmiðla, og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og samskipti hennar við aðrar þjóðir hins vegar.
Frumvarpið sem nú lá fyrir hafi hins vegar aðeins snúist um hvort ríkissjóður myndi heimta þrjá milljarða til eða frá í skatt. Sumum kunni að finnast gjaldið of lágt, en öðrum of hátt, sagði Ólafur Ragnar. Það væri hins vegar ekki gott fordæmi ef málskotsrétturinn yrði nýttur með þeim hætti að forsetinn tæki afstöðu til mála af þessum toga. Hann hafnaði því jafnframt að lögin sneru að einhverju leyti að grundvallarskipan sjávarútvegsmála. Jafnframt vísaði hann í drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þar sem skattamál voru felld í flokka mála sem málskotsrétturinn ætti ekki að ná til.
Hann gagnrýndi jafnframt kennara við hans gömlu deild, stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og hvernig þeir hefðu komið fram í fjölmiðlum og látið í veðri vaka að fjöldi undirskrifta væri úrslitaþáttur um það hvort forsetinn skrifi undir frumvarp eða ekki. Hann gagnrýndi einnig stjórnmálafræðinga fyrir að koma ekki fram með djúpar skýringar á stjórnmálaástandinu, heldur sagði hann ummæli þeirra minna meira á skrif „bloggara,“ og hvatti þá til að byggja ummæli sín frekar á rannsóknum.
Hann hafnaði því að undirskrifta væri þörf þegar málskotsréttinum væri beitt. Ef forsetinn telur að frumvarp eigi að fara í dóm þjóðarinnar, þá þarf hann ekki frekari rökstuðning en þann.
Hann kallaði eftir sátt þjóðarinnar um stjórn fiskveiða, og vísaði til að náðst hafi í meginatriðum sæmileg sátt um menntakerfið, heilbrigðiskerfið og ýmislegt fleira.
Frétt mbl.is: Forsetinn staðfestir lög um veiðigjald
Frétt mbl.is: Segir forsetann skorta hugrekki