Fasta í 22 tíma á sólarhring

„Þetta er ótrúlega erfitt. Við föstum í 22 klukkustundir á sólarhring,“ segir Lína Mazar, en Lína er múslimi og ein af flóttakonunum átta sem komu til Akraness árið 2008. Nú stendur ramadan-mánuður yfir, sem er heilagasti mánuður múslima þar sem þeir fasta frá sólarupprás til sólarlags í þrjátíu daga.

Mánuðurinn er sérlega erfiður fyrir múslima á Íslandi, þar sem dagurinn er langur yfir sumartímann. „Við byrjum alltaf að fasta klukkan tvö um nótt og í dag föstum við til 23:45. Yfir mánuðinn mun tíminn lengjast, því þrjár mínútur bætast við á hverjum degi. Á morgun föstum við til 23:48,“ segir Lína. 

Börnin byrjuðu 12 ára að fasta

Þar sem fjölskyldan hefur einungis tvo tíma til að njóta matar og drykkjar er mikið upp úr matseldinni lagt. „Við byrjum að elda klukkan átta um kvöldið. Við búum til súpu, salat og alls kyns arabískan mat og kökur.“ Hún segir þó afar erfitt að standa í matargerðinni þar sem hungrið er farið að gera vart við sig á þeim tíma.

Lína á fjögur börn sem eru á aldrinum þriggja til fimmtán ára. Elsti strákurinn, sem er fimmtán ára og elsta stelpan, sem er 13 ára, taka bæði þátt í föstunni, en stelpan tók fyrst þátt á síðasta ári. Hún segir algengt að börn í arabalöndum byrji fyrr að taka þátt, eða um níu ára aldurinn. Hún telur að erfitt væri fyrir börn á Íslandi að byrja svo snemma þar sem hefð sé ekki fyrir þessu hér á landi.

Konur og karlar biðja saman á ramadan

Hún segir ramadan vissulega vera erfiðan tíma, en gefi einnig mikið af sér. „Ég elska þennan mánuð. Eftir föstuna lagast maður allur, öll veikindi og mein hverfa.“ Þá segir hún mikla áherslu vera lagða á samveru fjölskyldunnar. „ egar ramadan stendur yfir situr öll fjölskyldan saman, borða, tala og hlæja saman.“

Þá er einnig brugðið út af vananum með að kynin séu aðskilin í bæn. Hún segir venjuna vera að í moskum biðji karlar á neðri hæð, en konurnar séu með börnin á svölunum. Aðskilnaðurinn er einnig þegar beðið er heima fyrir, en þá víkja konurnar í annað herbergi á bænastund. Á ramadan biðji þau hins vegar öll saman, en það er eini tími ársins sem fyrirkomulagið er þannig.

Hægt að miða við lengd dagsins í nágrannalöndum

„Sumir múslimar á Íslandi hafa fundið leið í kringum þessa löngu daga í ramadan-mánuðinum,“ segir Amal Tamimi, framkvæmdastýra Jafnréttishúss. Hún segir það vera leyfilegt að miða föstutímann við nálægt land þar sem dagur og nótt séu eðlilega löng. „Þú getur til dæmis miðað þig við Marokkó eða Bretland, ég veit að sumir gera það.“ Amal tekur þó ekki þátt í ramadan-mánuðinum, þar sem hún er ekki virkur múslimi.

Ramadan er heilagasti mánuður múslima, þar sem þeir fasta frá …
Ramadan er heilagasti mánuður múslima, þar sem þeir fasta frá sólarupprás til sólarlags. ATTA KENARE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert