Eimskip hefur ekki flutt hvalkjöt

„Það hefur ekki verið leitað til Eimskips vegna flutninga á hvalkjöti og þar af leiðandi hefur ekki þurft að taka afstöðu til þess. Málið hefur einfaldlega ekki komið inn á borð hjá okkur,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, í samtali við mbl.is spurður að því hvort fyrirtækið hafi flutt hvalkjöt frá Íslandi og hvort það hafi í hyggju að halda þeim flutningum áfram hafi það gert það.

Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, sagði í samtali við mbl.is í gær að svo virtist sem flutningum á hvalkjöti frá Íslandi væri sjálfhætt en fyrirtækið hefur séð um slíka flutninga. „Okkur sýnist að þessu sé sjálfhætt því að þær hafnir sem hvalkjötið hefur verið flutt til eru búnar að setja bann á þessar afurðir, þannig að okkur séu allar bjargir bannaðar í þessum efnum.“

Tilefnið er að sex gámar af hvalkjöti sem flytja átti frá Íslandi til Japans á dögunum komust ekki lengra en til Hamborgar. Þar létu tollyfirvöld setja gámana á land á meðan kannað var hvort gögn sem fylgdu þeim væru rétt. Þetta varð til þess að gámarnir misstu af skipinu sem flytja átti þá til Japans. Þegar koma átti þeim í annað skip komu Grænfriðungar í veg fyrir það með mótmælum.

Búist er við að hvalkjötið verði í kjölfarið flutt aftur til Íslands en það var flutt til Rotterdam af Samskipum. Þaðan fór það til Hamborgar með skipi á vegum skipafélagsins Evergreen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert