Þekktur fyrir hrottaskap

Stefán Logi varð sjálfur fyrir hrottalegri líkamsárás í Seljahverfi í …
Stefán Logi varð sjálfur fyrir hrottalegri líkamsárás í Seljahverfi í vor.

Stefán Logi Sívarsson, sem lögreglan leitaði að vegna gruns um frelsissviptingu og hrottalega líkamsárás, hefur margsinnis verið dæmdur fyrir ofbeldi. Hann fékk fyrsta dóminn 1998 fyrir brot sem hann framdi þegar hann var 16 ára.

Uppfært klukkan 22:25: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, með liðsinni sérsveitar Ríkislögreglustjóra, handtók Stefán Loga í Miðhúsaskógi í kvöld.

Stefán Logi er fæddur í október 1981. Hann á sér langan sakaferil, en hann hefur hlotið átta refsidóma og fjórum sinnum gengist undir sektarrefsingu vegna líkamsárása, auðgunarbrota, umferðar- og fíkniefnalagabrota.

Stefán Logi var í Héraðsdómi Reykjavíkur snemma á þessu ári dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun, en var sýknaður í Hæstarétti.

Bannað að nálgast 16 ára stúlku

Stefán Logi var snemma á þessu ári dæmdur í nálgunarbann vegna sambands hans við unga stúlku. Honum er óheimilt að koma nærri sextán ára stúlku sem vistuð var á meðferðarstofnun. Fram kemur í úrskurðinum að Barnavernd Reykjavíkurborgar telji að stúlkan hafi  fylgt Stefáni Loga í ferðir þegar hann ásamt vinum sínum var að innheimta vímuefnaskuldir. Hann hafi gefið stúlkunni fíkniefni og grunur leiki á að hann hafi átt í kynferðissambandi við hana.

Stefán Logi komst í fréttir í vor þegar gengið var í skrokk á honum við Ystasel í Breiðholti í vor. Árásin var hrottaleg, en Stefán var barinn með hafnaboltakylfu og var alblóðugur þegar lögreglan mætti á staðinn. Það mál er til rannsóknar, en engin ákæra hefur enn verið gefin út.

Langur brotaferill

Stefán Logi komst fyrst í fréttir fjölmiðla árið 1992 þegar hann réðist ásamt bróður sínum á unga móður á Eiðistorgi. Hann var þá aðeins 11 ára gamall. Hann fékk sinn fyrsta dóm árið 1998 fyrir að brjótast inn í íbúðir, skólahús og bifreiðar. Hann var einnig dæmdur fyrir þrjár líkamsárásir, m.a. fyrir að ráðast á mann á áramótabrennu við Ægissíðu í Reykjavík.

Stefán Logi var árið 2003 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir líkamsárás. Hann var einnig í október 2004 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir sérstaklega fólskulega líkamsárás. Þá réðist hann á 16 ára pilt og sló hann með krepptum hnefa í andlit og maga svo hann féll í gólfið og sparkaði svo í kvið hans þar sem hann lá á gólfinu. Afleiðingarnar urðu þær að milta piltsins rifnaði og af hlaust lífshættuleg innvortis blæðing.

Fram kom í dómnum að samkvæmt sálfræðilegri rannsókn ætti Stefán Logi við ýmiss konar félagsleg og persónuleg vandamál að stríða, sem að langmestu leyti má rekja til fíkniefnaneyslu hans frá unga aldri og mjög erfiðra uppeldisskilyrða.

Nota áhöld við pyntingarnar

Það mál sem nú er til rannsóknar og varðar frelsissviptingu og líkamsárás á Stokkseyri er alvarlegt. Ekki er eingöngu um að ræða að maðurinn hafi verið barinn, heldur grunar lögreglu að notuð hafi verið áhöld til að pína manninn. Einn heimildarmanna mbl.is sagði að þeir menn sem standi fyrir hrottaskap í undirheimum landsins í dag noti barefli, svipur og tangir þegar þeir telji sig þurfa að jafna sakir við menn.

Talsvert er síðan Stefán Logi sat síðast inni. Hann er ekki á reynslulausn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert