Stúdentaráð HÍ stefnir LÍN

Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) hefur stefnt stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og íslenska ríkinu vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins. Kom þetta fram á blaðamannafundi sem haldinn var í dag. Samkvæmt heimildum mbl.is er þetta í fyrsta skipti sem SHÍ fer í mál við íslenska ríkið.

SHÍ telur að stjórn LÍN hafi brotið gegn lögum við töku ákvörðunarinnar um að auka lágmarkskröfur um námsframvindu úr 18 einingum í 22 á önn. Breytingarnar hafi verið boðaðar með örskömmum fyrirvara.

María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs, sagði á fundinum að fallist hefði verið á að málið fengi flýtimeðferð fyrir dómstólum.

SHÍ segir að þingfesting málsins verði á fimmtudaginn og að LÍN og ríkið fái frest fram í næstu viku til að skila greinargerð í málinu. Málflutningur og dómur ættu því að geta verið fyrri part ágústmánaðar.

Til að mál fái flýtimeðferð þarf það að vera höfðað vegna athafnar stjórnvalds, svo sem vegna breytinga á reglum, og að brýn þörf sé á skjótri úrlausn og að málið hafi almenna þýðingu.

SHÍ gerir þær kröfur að felldar verði úr gildi breytingarnar sem samþykktar hafa verið á útlánareglum sjóðsins.

Grundvallarbreytingar á fyrsta fundi nýrrar stjórnar

SHÍ segir að fulltrúar sínir hafi fengið afar nauman tíma til að kynna sér boðaðar breytingar á útlánareglunum, en upplýsingar um að til stæði að breyta reglunum bárust fulltrúa stúdenta seinnipart föstudags, en fundurinn var mánudaginn eftir. Fundurinn var jafnframt fyrsti fundir nýskipaðrar stjórnar.

Auk þess að herða kröfur um námsframvindu lagði stjórnin til að fallið yrði frá fyrirhugaðri hækkun á frítekjumarki. Stjórn LÍN samþykkti breytingarnar, þrátt fyrir mótmæli fulltrúa stúdenta. Reglurnar taka gildi strax í haust, en stúdentar höfðu lagt til að gildistöku þeirra yrði frestað til vors.

Stúdentaráð Háskóla Íslands á blaðamannafundinum í dag.
Stúdentaráð Háskóla Íslands á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert