Gríðarhörð hjólreiðakeppni

Keppni á öðrum degi á Hlaupahátíðar á Vestfjörðum var hleypt af stað klukkan 10 í morgun þar sem 50 keppendur tóku þátt í 55 km fjallahjólreiðum um svokallaða Svalvogaleið.

Fyrstir komu í mark Ingvar Ómarsson á 2:11:03 en fast á hæla honum kom sigurvegari síðasta árs Hafsteinn Ægir Geirsson á tímanum 2:11:13. Fyrst kvenna í mark var María Ögn Guðmundsdóttir á 2:38:36.

Vert er að geta þess að María Ögn bætti tíma sinn frá því í fyrra um 26 mínútur.

Ingvar og Hafsteinn Ægir tóku fljótt forystu og voru hnífjafnir þegar komið var í Kirkjubólsdal. Þegar þeir félagar voru hins vegar búnir að hjóla 30 km byrjaði skyndilega loft að leka úr dekkinu hjá Hafsteini Ægi. Neyddist hann því til að stoppa og pumpa lofti í dekk sitt en þessi uppákoma kostaði hann um eina mínútu.

Hafsteinn Ægir var hins vegar hvergi hættur því þegar komið var að Þingeyri hafði hann svo gott sem unnið upp tímatapið og voru þeir Ingvar skyndilega orðnir nær jafnir á ný. Baráttan var gríðarhörð undir lokin en Ingvar náði að lokum að merja sigur.

Í keppninni er hjólað frá Þingeyri að flugvellinum í Dýrafirði og síðan inn Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði, en þar er farið í 544 m hæð áður en haldið er eftir langri, grófri en nokkuð beinni brekku niður Fossdal að sjó í Arnarfirði.

Þessi brekka þykir nokkuð krefjandi en reyndari keppendur töldu að rigning sumarsins hefði komið til góða þar sem vegurinn væri þéttari en oft áður. Hjólað er svo sem leið liggur yfir í Stapadal og síðan eftir ýtuvegi Elíasar Kjarans út í Lokinhamradal, fyrir Sléttanes að Svalvogavita, eftir syllunni í Hrafnholunum inn í Keldudal og þaðan inn Dýrafjörðinn að Þingeyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert